Um tvö hundruð fjallgöngumenn eru fastir í hlíðum Everest-fjalls vegna mikillar snjókomu og standa björgunaraðgerðir yfir til að ná þeim niður.
Yfirvöld hafa verið í sambandi við þá, að því er kínverskir fjölmiðlar greindu frá.
Um 350 fjallgöngumönnum til viðbótar hefur verið bjargað.
Snjó tók að kyngja niður á svæðinu á föstudagskvöld og jókst snjókoman í austurhlíðum Everest með þeim afleiðingum að fjallgöngumenn sátu þar fastir.
Hundruð heimamanna hafa tekið þátt í björgunaraðgerðum, auk björgunarsveitarmanna.
Fjallgöngumenn sögðust í samtali við BBC varla hafa sofið og einn þeirra sagðist hafa þurft að hreinsa snjóinn í burtu frá tjaldinu sínu á tíu mínútna fresti.
Óveðrið hefur líka gengið yfir Nepal. Þar hafa miklar rigningar og flóð orðið að minnsta kosti 47 manns að bana síðan á föstudaginn.
