Bundust fastmælum um manndráp

Aðalinngangur hins annálaða Sakadóms Englands og Wales í London sem …
Aðalinngangur hins annálaða Sakadóms Englands og Wales í London sem í daglegu tali er jafnan nefndur Old Bailey. Átján ára gamall Norðmaður situr nú þar á sakamannabekk í máli sem gæti kostað hann lífstíðardóm. Ljósmynd/Wikipedia.org/Tbmurray

Átján ára gamall Norðmaður frá Stavanger svarar nú til saka hjá Sakadómi Englands og Wales í London, betur þekktum sem Old Bailey, grunaður um að hafa lagt á ráðin um manndráp á Englandi og í Noregi auk ólöglegs vopnaburðar.

Á hann yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi verði hann sekur fundinn.

Fjallað hefur verið um málið áður hér á mbl.is þar sem í marslok sagði af því að sá sem nú er ákærður hafi verið handtekinn í Huddersfield í Bretlandi vikuna áður og tengdist mál hans máli sem norska rannsóknarlögreglan Kripos rannsakaði og snerist um manndráp sem lögð höfðu verið á ráðin um í Stavanger.

„Við rannsóknina á því sem við teljum að sé samkomulag um manndráp í Stavanger komumst við á snoðir um að annað dráp stæði fyrir dyrum í Bretlandi,“ sagði John Ivar Johansen, lögmaður rannsóknarlögreglunnar Kripos, í fréttatilkynningu eftir að ungi maðurinn var handtekinn í Bretlandi.

Áttu ekki frumkvæði að málinu

Í samtali við norska ríkisútvarpið NRK sagði Johansen Kripos gruna að einn hinna handteknu í Noregi, en þar höfðu þá nokkrar handtökur verið framkvæmdar, tengdist skipulagningu dráps í Bretlandi. Tók lögmaðurinn þó fram að rannsóknin væri skammt á veg komin, en lögreglan teldi málið teygja sig til sænskra glæpagengja.

Í hnotskurn snýst málið um að níumenningar, allir frá Stavanger, gerðu með sér það sem í norskum hegningarlögum heitir samkomulag um manndráp, drapsforbund á norsku. Er lögreglu þó ekki kunnugt um meint skotmörk þar.

Voru Norðmennirnir þó ekki frumkvæðismenn í málinu heldur fengnir til verksins að undirlagi sænsks glæpagengis og var um fyrsta mál í Noregi að ræða þar sem lögregla komst á snoðir um að norskum ungmennum væri ætlað að fremja ofbeldisglæpi á vegum undirheimamanna í nágrannalandinu.

Alls eru áðurnefndir níu manns frá fimmtán ára og upp yfir tvítugt grunaðir í málinu, þar af tveir sextán ára, einn sautján ára og tveir átján, annar þeirra sá sem nú svarar til saka fyrir Old Bailey. Þeir sem þá standa út af borðinu eru á þrítugsaldri.

„Skipulagt í Noregi“

„Sonur okkar hefur þegar hafið afplánun, hann hefur setið inni í hálft ár við skelfilegan aðbúnað,“ segir móðir þess síðasttalda við norska ríkisútvarpið NRK og gerir alvarlegar athugasemdir við að sonur hennar sæti gæsluvarðhaldi á meðan aðrir grunaðir í sama máli strjúki um frjálst höfuð. Tekur hún fram að sonurinn glími við andlega erfiðleika og að mál hans ætti að reka fyrir norskum dómstólum.

„Allt málið er í Noregi. Öll vitni, öll sönnunargögn og allir aðrir þátttakendur eru þar. Hafi eitthvað verið skipulagt hefur það verið skipulagt í Noregi,“ segir hún en breska ákæruvaldið leggur blessun sína ekki yfir að málið verði rekið í Noregi.

Norðmaðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi í Belmarsh-fangelsinu sem ku ekki vera meðal helstu sælureita Bretlands og bað dómari málsins hann afsökunar á að þar hafi honum ekki leyfst að hitta verjanda sinn áður en aðalmeðferð málsins hófst en hún er ekki afgreidd á nokkrum dögum eða vikum. Eftir þinghald, sem átti sér stað nú fyrir helgina, var málinu frestað til 27. mars 2026 og kemur ákærði þá næst fyrir sakadómara í Old Bailey.

„Hann er óttasleginn og kvíðinn, ég efast um að hann haldi þetta út,“ segir móðirin við NRK.

NRK

NRK-II (móðir berst fyrir að fá soninn heim)

Dagbladet

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka