Spænska neyðarþjónustan leitar að fjórum einstaklingum sem saknað er eftir að bygging í miðborg Madrídar hrundi í dag með þeim afleiðingum að nokkrir verkamenn slösuðust.
Að sögn yfirvalda féll byggingin, sem er skammt frá Plaza Mayor í miðborginni, þegar nokkrar gólfplötur hrundu og „ollu því að hinar hæðirnar gáfu sig einnig niður í kjallara byggingarinnar“.
Vitni lýstu miklum hvelli og þykku hvítum mekki sem fyllti götuna.
Fulltrúi ríkisstjórnarinnar hefur sagt tjónið mjög alvarlegt og að verið sé að meta áhrif á nálæg hús. Fjölmennt lið lögreglu og slökkviliðs vinnur á vettvangi en nálæg hús voru rýmd af öryggisástæðum.
Vettvangurinn var umlukinn lögreglu og sjúkrabifreiðum og notuðu lögreglumenn dróna til að skoða rústirnar.
Upplýsingar um fjölda slasaðra eru enn á reiki en samkvæmt fyrstu upplýsingum slösuðust allt að tíu manns, flestir lítillega.
Að sögn aðstoðarborgarstjóra Madrídar er þriggja karla og einnar konu saknað.
Verið var að endurbyggja bygginguna, sem áður hýsti skrifstofur, og átti hún að verða hótel. Hún var sex hæðir og um 6.700 fermetrar að flatarmáli.
