Fordæmir atlögu að bæjarstjóra

Irisi Stalzer voru veitt alvarleg stungusár skammt frá heimili hennar …
Irisi Stalzer voru veitt alvarleg stungusár skammt frá heimili hennar í Herdecke í dag og eru bæjarbúar þessa þýska iðnaðarbæjar í Ruhr-héraðinu slegnir óhug. AFP/Alex Talash

Friedrich Merz Þýskalandskanslari fordæmir árás á Irisi Stalzer harðlega, bæjarstjóra Herdecke sem ekki er langt frá borginni Dortmund í Vestur-Þýskalandi, en Stalzer er alvarlega sár eftir að á hana var ráðist með eggvopni skammt frá heimili hennar fyrr í dag.

„Við óttumst um líf hennar,“ skrifaði kanslarinn á samfélagsmiðilinn X þar sem hann krafðist þess jafnframt að lögregla kæmist til botns í því sem raunverulega gerðist en að sögn AFP-fréttastofunnar hefur lögregla í Herdecke ekki tekið símann í dag til að svara spurningum þeirra AFP-manna um líkamsárásina.

Iris Stalzer var kjörin bæjarstjóri Herdecke 28. september og liggur …
Iris Stalzer var kjörin bæjarstjóri Herdecke 28. september og liggur nú þungt haldin á sjúkrahúsi. AFP/Bernd Henkel

Sonurinn til vitnis

Eftir því sem talsmenn bæjarráðs Herdecke greina frá eru íbúar þar sem steini lostnir og fullir vantrúar eftir það sem gerðist en Stalzer, sem er tæplega sextugur jafnaðarmaður í SPD-flokknum þýska, var nýverið kjörin bæjarstjóri sveitarfélagsins sem er hluti iðnhéraðsins Ruhr.

„Við erum hjá henni í huganum og vonumst við til að hún lifi þennan hrottalega glæp af,“ sagði Matthias Miersch, þingflokksformaður SDP á þinginu í Berlín, fyrr í dag.

Eftir því sem þýska dagblaðið Bild greinir frá fann fimmtán ára gamall ættleiddur sonur Stalzer hana þungt haldna á heimili þeirra með stungusár á baki og kvið en hann varð vitni að árásinni á móður sína og gat greint lögreglu frá því að nokkrir menn hefðu gert að henni aðsúg úti á götu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert