Samfélög gyðinga víða um heim minntust þess um helgina að í dag eru liðin tvö ár frá hryðjuverkunum 7. október 2023, þar sem Hamas-samtökin réðust á suðurhluta Ísraels og drápu þar 1.219 manns, mestallt óbreytta borgara, og tóku 251 gísl.
Árásin markaði upphaf núverandi átaka fyrir botni Miðjarðarhafs, þar sem Ísraelsher hefur lagt allt í sölurnar til þess að ganga milli bols og höfuðs á Hamas-samtökunum og endurheimta um leið gíslana, bæði þá sem eru á lífi og lík þeirra sem taldir eru af.
Afleiðingar árásar Hamas-samtakanna 7. október hafa verið skelfilegar fyrir íbúa Gasasvæðisins. Heilbrigðisráðuneyti svæðisins, sem lýtur stjórn Hamas, áætlar að 67.160 íbúar þess hið minnsta hafi fallið í átökunum, en deilt hefur verið um hvort að þær tölur séu áreiðanlegar. Þá hafa átökin leitt af sér hungursneyð á Gasasvæðinu, sem Ísraelar hafa verið sakaðir um að hafa stuðlað að, en stjórnvöld í Ísrael vísa þeim ásökunum til föðurhúsanna.
Nú tveimur árum eftir árásirnar hillir hins vegar mögulega undir frið, en fulltrúar Hamas og Ísraelsríkis hófu í gær fundahöld í Sharm El-Sheikh í Egyptalandi með milligöngu Bandaríkjamanna, Egypta og Katara um friðaráætlun þá er Donald Trump Bandaríkjaforseti setti fram 29. september síðastliðinn á fundi sínum með forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú.
Netanjahú lýsti þá þegar yfir stuðningi sínum við áætlunina með vissum fyrirvörum, en ekki voru allir í ríkisstjórn hans á eitt sáttir um áætlunina þegar hún var kynnt. Þá var beðið eftir því að leiðtogar Hamas-samtakanna myndu lýsa afstöðu sinni.
Gáfu þeir til kynna á sunnudaginn að samtökin væru reiðubúin til þess að binda enda á átökin en ræða þyrfti ýmis smáatriði til þess að greiða fyrir vopnahléi. Trump Bandaríkjaforseti skoraði í fyrrakvöld á samningamenn beggja aðila að hafa hraðar hendur til þess að koma á friði.
Sagði Trump á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, að fyrsti fasi friðaráætlunarinnar gæti komist til framkvæmda í þessari viku, en áætlunin gerir ráð fyrir að Hamas-samtökin afvopnist og gefi eftir völd sín á Gasasvæðinu en fái þess í stað að lifa þar í friði. Á móti mun Ísraelsher draga sig í hlé að fyrirframákveðinni línu.
Friðaráætlunin gerir einnig ráð fyrir að Hamas-samtökin skili öllum þeim gíslum, sem enn eru á valdi þeirra, en Ísraelar segja að þeir séu 47 talsins. Þar af eru 25 taldir látnir, en Ísraelar hafa mikinn hug á að endurheimta lík þeirra svo hægt sé að veita þeim viðeigandi útför. Á móti mun Ísraelsstjórn láta lausa 250 palestínska fanga sem dæmdir hafa verið í lífstíðarfangelsi, auk þess sem rúmlega 1.700 manns sem teknir hafa verið höndum í núverandi átökum verða einnig látnir lausir.
Friðaráætlun Trumps hefur fengið nær einhliða lof á alþjóðasviðinu, þar á meðal frá ríkjum araba og múslima, en hún er talin fela í sér bestu vonina um að hægt verði að stilla til friðar eftir tveggja ára átök. Enn er þó ýmislegt á huldu varðandi það hvernig áætlunin verði útfærð. Líkt og fyrr segir gerir hún ráð fyrir að Hamas-samtökin afvopnist að fullu, en talið er ólíklegt að forsvarsmenn samtakanna muni fallast á slíkt ótilneyddir. Netanjahú hefur aftur á móti lýst því yfir að samtökin verði afvopnuð með góðu eða illu.
Þá hafa forsvarsmenn Hamas einnig gefið til kynna að þeir telji enn að samtökin geti leikið rullu í stjórnmálalífi Gasasvæðisins að stríði loknu, en friðaráætlun Trumps útilokar það með öllu.
Gagnvart Ísrael kveður friðaráætlunin á um að Ísraelsher dragi sig til baka frá Gasasvæðinu í áföngum. Netanjahú hefur hins vegar lýst því yfir að það muni alfarið fara eftir því hvernig gangi að endurheimta gíslana, og þykir líklegt að Ísraelsher verði fljótur til að grípa til aðgerða á ný ef ráðist verður á Ísrael frá Gasasvæðinu meðan á friðarferlinu stendur.
Þá útilokar friðaráætlun Trumps ekki hina svokölluðu tveggja ríkja lausn eða að heimastjórn Palestínumanna, sem nú fer með yfirráðin á Vesturbakkanum, geti með tíð og
tíma tekið við völdum á Gasasvæðinu. Ríkisstjórn Netanjahús er hins vegar algjörlega mótfallin því að stofnað verði sérstakt ríki Palestínumanna, og sagði hann á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að slíkt myndi vera ígildi „sjálfsmorðs“ fyrir Ísrael.
Þrátt fyrir þetta þykir líklegt að nást muni saman um lausn í viðræðunum í Sharm El-Sheikh, þar sem nú loks hafa skapast aðstæður til þess að stilla til friðar innan Ísraels og á Gasasvæðinu. Aðstandendur gíslanna innan Ísraels hafa t.d. þrýst mjög á um að samið verði, svo að ættingjar þeirra geti snúið heim, en á sama tíma hafa Palestínumenn á Gasasvæðinu einnig kallað eftir því að Hamas-samtökin semji um frið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
