Danska ríkisstjórnin vill setja bann við notkun nokkurra samfélagsmiðla fyrir börn yngri en 15 ára.
„Farsímar og samfélagsmiðlar eru að stela barnæsku barna okkar,“ sagði Mette Frederiksen forsætisráðherra á danska þinginu í dag.
„Við höfum leyst úr læðingi skrímsli,“ sagði Frederiksen og benti á að næstum því öll dönsk börn í sjöunda bekk, þar sem nemendur eru venjulega 13 eða 14 ára, eiga farsíma.
Hún tilgreindi ekki hvaða samfélagsmiðla nýju aðgerðirnar myndu ná til en sagði að þær myndu ná yfir „nokkra“ samfélagsmiðla. Hún sagði að foreldrar hefðu möguleika á að veita börnum sínum sérstakt leyfi til að nota samfélagsmiðla frá 13 ára aldri.
Tilkynningin kemur í kjölfar þess að Danmörk tilkynnti í febrúar að farsímar yrðu bannaðir í öllum skólum og frístundaheimilum.
Sú ákvörðun var tekin að tillögu velferðarnefndar ríkisstjórnarinnar, sem var sett á fót til að rannsaka vaxandi óánægju meðal barna og ungmenna, en hún komst að þeirri niðurstöðu að börn yngri en 13 ára ættu ekki að eiga sinn eigin snjallsíma eða spjaldtölvu.
Frumvarp um aldurstakmörk samfélagsmiðla hefur þó ekki enn verið lagt fram af hálfu ríkisstjórnar Mette Frederiksen í Danmörku og því ekki ljóst hvenær þetta bann gæti tekið gildi.
Áströlsk stjórnvöld stefna að því að innleiða bann við notkun samfélagsmiðla á borð við Facebook, Snapchat, TikTok og YouTube fyrir yngri en 16 ára.
Í Noregi hefur Jonas Gahr Støre forsætisráðherra einnig sagt að stjórnvöld stefni á 15 ára lágmarksaldurstakmark á notkun samfélagsmiðla.