Krefst lífstíðardóms yfir Íslendingnum

Aðalmeðferð máls Íslendings, sem ákærður er fyrir að skjóta konu …
Aðalmeðferð máls Íslendings, sem ákærður er fyrir að skjóta konu á sjötugsaldri til bana á heimili hennar 24. október í fyrra, fer nú fram fyrir Héraðsdómi Solna, norðvestur af Stokkhólmi, og lýkur eftir rúmar tvær vikur. Samsett mynd/AFP/Sænska lögreglan

„Játning ákærða liggur fyrir í máli sem snýst um 63 ára gamla konu sem var skotin til bana á heimili sínu í Stokkhólmi fyrir réttu ári,“ segir Alexandra Bittner í samtali við mbl.is, héraðssaksóknari og um leið aðalsaksóknari í máli Íslendings sem sætir ákæru í Svíþjóð við þriðja mann fyrir framangreint brot.

Auk þess að vera ákærð fyrir manndráp eru allir sakborningarnir, tveir menn og ein kona, enn fremur ákærð fyrir tilraun til manndráps þar sem þau heimsóttu aðra manneskju – sem var á lista yfir skotmörk sænska Dalen-glæpagengisins yfir hefndarvíg – en fengu ekki færi á henni þar sem hún kom ekki til dyra.

Höfðu ákærðu, eða að minnsta kosti Íslendingurinn, sem er aðalákærði, samkvæmt öruggum upplýsingum lögreglunnar í Stokkhólmi tekið ódæðin að sér gegn greiðslu.

Hér á mbl.is hefur áður verið greint frá því að aðalákærði sé hálfur Íslendingur en hið rétta er að foreldrar hans eru báðir íslenskir og bjuggu báðir í Svíþjóð en ákærði fékk sænskan ríkisborgararétt snemmárs 2010 eftir því sem Héraðsdómur Solna, þar sem aðalmeðferð málsins fer fram, hefur greint mbl.is frá.

Aðalákærði í Akalla-málinu er Íslendingur sem öðlaðist sænskan ríkisborgararétt árið …
Aðalákærði í Akalla-málinu er Íslendingur sem öðlaðist sænskan ríkisborgararétt árið 2010 en báðir foreldrar hans bjuggu um tíma í Svíþjóð. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Áttu í stormasömu sambandi

„Meðákærðu neita sök í málinu,“ heldur Bittner saksóknari áfram við mbl.is, „við erum núna hálfnuð með aðalmeðferðina og hann [Íslendingurinn] kemur fyrir réttinn á morgun og verður þá beðinn að gera grein fyrir atburðarásinni,“ segir hún.

Hvaða refsingar kemur ákæruvaldið til með að krefjast yfir aðalákærða?

„Ég er þeirrar skoðunar að refsing fyrir þess háttar brot sem hér liggur fyrir sé lífstíðarfangelsi,“ svarar Alexandra Bittner héraðssaksóknari blákalt og þagnar, orðum sínum til áhersluauka.

Eru það réttar upplýsingar að konan sem ákærð er sé eða hafi verið kærasta aðalákærða?

„Okkur skilst að þau hafi átt í sambandi sem var stormasamt, þau voru sundur og saman og höfðu ekki verið saman síðustu tvö árin áður en til brotanna kom,“ svarar saksóknari og blaðamaður spyr um framhald aðalmeðferðarinnar fyrir Héraðsdómi Solna.

„Við ljúkum málflutningi líklega 22. október, kannski 23., það fer eftir því hvernig meðferð málsins þróast og svo reikna ég með tveimur vikum fram að dómsuppkvaðningu eftir það,“ er svarið.

Skjáskot úr myndavél sjúkraflutningamanns eftir að fyrsta sjúkrabifreiðin kom á …
Skjáskot úr myndavél sjúkraflutningamanns eftir að fyrsta sjúkrabifreiðin kom á vettvang í Akalla í Stokkhólmi 24. október í fyrra þar sem 63 ára gömul kona hafði verið skotin til bana á heimili sínu. Listi ákærðu yfir skotmörk var lengri en aðalákærði hafði tekið að sér gegn greiðslu að annast hefndarvíg á vegum Dalen-glæpagengisins sænska. Skjáskot/Sænska lögreglan

Skálmöld án hliðstæðu

Nú hafa sænsk löggæsluyfirvöld staðið frammi fyrir afbrota- og ofbeldisöldu án hliðstæðu síðan um það bil við lok heimsfaraldurs og fréttir ítrekað verið fluttar af leigumorðingjum sem ráðnir eru til að ganga fólki milli bols og höfuðs í þeirri gengjastyrjöld sem ríkir í sænskum undirheimum. Getur þú staðfest þetta sem saksóknari?

„Já, þróunin er sú að núna er fólk ráðið til þess að fremja alvarlega ofbeldisglæpi gegnum dulkóðaða samskiptamiðla þar sem verk eru hreinlega boðin út gegn greiðslu og oft eru þetta bara unglingar sem taka þessi verkefni að sér,“ staðfestir Bittner sem aðspurð kýs þó ekki að tjá sig um fréttaflutning af glæpaverktöku af þessu tagi, sem norska lögreglan ræðir um sem „crime as a service“-mál en þeim hefur fjölgað ört Noregsmegin landamæranna svo sem mbl.is hefur ítrekað fjallað um.

Geturðu þá sagt mér hvort þú sækir nú í fyrsta sinn á þínum ferli íslenskan mann til saka fyrir leigumorð?

„Já, þetta er í fyrsta sinn,“ svarar saksóknari sem að eigin sögn sérhæfir sig í saksókn fyrir alvarleg ofbeldisbrot og á að baki þrettán ára feril á vegum sænska ákæruvaldsins. „Ég er ekki mjög kunnug [aðalákærða], hans bakgrunni eða tengslum hans við Ísland, þau atriði eru ekki á nokkurn hátt þungavigtaratriði við rekstur málsins,“ segir Bittner og er að lokum spurð út í framkomu aðalákærða fyrir héraðsdómi, manns sem hefur játað á sig sakir sem ef til vill gera hann að fyrsta íslenska leigumorðingjanum – að minnsta kosti á seinni tíð.

„Ég hef ekki lagt fyrir hann spurningar enn þá í aðalmeðferðinni,“ svarar héraðssaksóknari undir lokin, en sá dagur rennur upp á morgun eins og fram er komið, „en aðalmeðferðin hefur gengið rólega fyrir sig,“ segir sænski héraðssaksóknarinn Alexandra Bittner sem sækir íslenskan mann og tvö meðákærð til saka í manndrápsmáli með fulltingi annars saksóknara við Héraðsdóm Solna, rétt norðvestur af sænsku höfuðborginni Stokkhólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka