Eitt stærsta grafhýsi Dals konunganna í suðurhluta Egyptalands hefur verið opnað fyrir almenningi eftir áralangar endurbætur.
Grafhýsi Amenhóteps III faraós er yfir 3.000 ára gamalt og var í hættu á að hrynja þegar endurbæturnar hófust. Voru þær unnar með stuðningi menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO og japanska ríkisins. Yfir 260 sérfræðingar komu að endurbótunum.
Grafhýsið er höggvið í hlíðina á vesturbakka Nílar gegnt borginni Luxor. Það er skreytt með veggmálverkum sem talin eru meðal þeirra stórkostlegustu sem varðveist hafa í grafhýsum átjándu konungsættarinnar.