Réttað yfir konu sem segist vera Madeleine

Ljósmynd af Madeleine McCann á YouTube-síðu á tölvuskjá.
Ljósmynd af Madeleine McCann á YouTube-síðu á tölvuskjá. AFP/Nathalie Magniez

Pólsk kona sem segist vera breska stúlkan Madeleine McCaann, sem hvarf árið 2007, fór fyrir rétt í gær þar sem hún er sökuð um að hafa setið um foreldra hennar og áreitt þá með tölvupóstum og símhringingum.

Julia Wandelt, 24 ára, neitaði fyrir rétti í Leicester að hafa setið um foreldrana Kate og Gerry og valdið þeim alvarlegum áhyggjum og streitu á tímabilinu frá júní 2022 þangað til í febrúar á þessu ári.

Réttarhöld standa einnig yfir Karen Spragg, 61 árs frá Cardiff í Wales, vegna sömu ákæru og hefur hún einnig neitað sök.

„Ótvíræðar vísindalegar sannanir“

McCann-foreldrarnir, sem eru bæði læknar, hafa verið áberandi víða um heim síðan þriggja ára dóttir þeirra Madeleine hvarf 3. maí 2007, úr íbúð þar sem þau dvöldu í Praia da Luz í Portúgal þar sem þau voru í fríi.

Kate og Gerry McCann árið 2017.
Kate og Gerry McCann árið 2017. AFP

Saksóknarar sögðu að það væru „ótvíræðar vísindalegar sannanir” fyrir því að Wandelt, sem segist muna eftir sér úr æsku og hvarfi sínu sem Madeleine, tengist ekki McCann-hjónunum. 

„Getum við í byrjun þessara réttarhalda haft þá afstöðu á hreinu að Julia Wandelt er ekki Madeleine McCann,” sagði saksóknarinn Michael Duck.

Hann bætti við að þegar Madeleine hvarf hefði Wandelt ekki verið jafngömul henni. Wandelt hefur haldið því fram að henni hafi verið rænt og hún flutt til Póllands.

60 símtöl sama daginn

Wandelt, sem er 24 ára, var handtekin á flugvellinum í Bristol í febrúar síðastliðnum, sökuð um að hafa dúkkað upp á heimili McCann-hjónanna.

Eitt sinn hringdi hún 60 sinnum í Kate McCann á einum og sama deginum, að því er kom fram í réttarsalnum. Einnig sendi hún „breyttar” ljósmyndir til yngri systur Madeleine til að „fá hana til að trúa því” að þær væru skyldar, sögðu saksóknarar.

Einnig greindu þeir frá því að Wandelt hefði áður haldið því fram að hún væri í raun og veru tvær aðrar stúlkur sem hurfu í Utah í Bandaríkjunum árið 2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka