Búið er að leysa upp glæpasamtök sem sérhæfðu sig í að stela lúxustvinnbílum. Um er að ræða alþjóðlega aðgerð sem lögreglan á Ítalíu stýrði með stuðningi Europol og Eurojust.
Þjófarnir stálu yfir 100 lúxusbifreiðum og er heildarverðmæti þeirra sagt nema um þremur milljónum evra, eða sem samsvarar um 425 milljónum kr.
Fram kemur í tilkynningu frá Europol að flestir liðsmanna samtakanna hafi verið moldóvskir ríkisborgarar, sem flestir voru rússneskumælandi. Þjófarnir beindu sjónum sínum aðallega að hágæða tvinnbílum víðs vegar um Norður-Ítalíu og á Marbella-svæðinu á Spáni.
Stolnu bílunum og íhlutum þeirra (yfirbyggingu, rafhlöðupökkum og vélrænum hlutum) var skipað út um höfnina í Antwerpen í Hollandi á ólöglegan alþjóðlegan markað.
Sjö voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar á Ítalíu í dag. Þá lagði lögreglan hald á 35.000 evrur í reiðufé, sem jafngildir um fimm milljónum kr., og 150.000 evrur í rafmyntum, sem samsvarar um 21 milljón kr.
Um 100 lögreglumenn tóku þátt í samræmdu aðgerðinni með stuðningi frá spænskum lögreglumönnum sem voru sendir til Belgíu og Ítalíu og ítölskum lögreglumönnum sem sendir voru til Spánar og Belgíu.
Rafmyntasérfræðingar frá Belgíu, Ítalíu og Spáni tóku þátt í leitinni til að tryggja og endurheimta ólöglegar stafrænar eignir.
