Þrír eru í lífshættu eftir að sjúkraþyrla hrapaði á hraðbraut í Sacramento í Kaliforníu í Bandaríkjunum í gærkvöld.
Þyrlan hrapaði rétt eftir klukkan 19 að staðartíma skömmu eftir að hafa tekið á loft frá UC Davi- háskólasjúkrahúsinu.
Flugmaður, hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður voru um borð og voru flutt á sjúkrahús í lífshættulegu ástandi eftir slysið, að því er slökkvilið Sacramento greindi frá samkvæmt frétt CNN.
Upptökur sem birtar voru á samfélagsmiðlum sýndu þyrluna sveima yfir röð bíla áður en hún hrapaði til jarðar.
Vegfarendur hjálpuðu fyrstu viðbragðsaðilum við að lyfta þyrlunni til að ná einum einstaklingi sem sat fastur undir henni, að sögn slökkviliðsins. Orsök slyssins er enn til rannsóknar.
