Fimm handteknir í stórfelldu kókaínmáli

Rannsóknin beindist að háttsettum aðilum innan kólumbískra fíkniefnasamtaka sem stýrðu …
Rannsóknin beindist að háttsettum aðilum innan kólumbískra fíkniefnasamtaka sem stýrðu innflutningi margra tonna af kókaíni frá Suður-Ameríku til Evrópu. AFP

Fimm einstaklingar hafa verið handteknir í Kólumbíu og á Spáni fyrir stórfellt kókaínsmygl. Einstaklingarnir tengjast hinu svokallaða Flóabandalagi, eða Clan del Golfo, sem reis upp úr ösku sjálfs Pablos heitins Escobar.

Handtökurnar voru gerðar í byrjun október af kólumbísku lögreglunni og spænsku landamæragæslunni með stuðningi Europol. Rannsóknin beindist að háttsettum aðilum innan kólumbískra fíkniefnasamtaka sem stýrðu innflutningi margra tonna af kókaíni frá Suður-Ameríku til Evrópu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol.

Gegndu mismunandi hlutverkum

Segir þar jafnframt að hinir grunuðu hafi gegnt mismunandi hlutverkum innan samtakanna, meðal annars verið í beinum samskiptum við Flóabandalagið til að tryggja stórfelld kókaínviðskipti, haft tengsl við evrópska glæpahópa til að auðvelda dreifingu fíkniefnanna og séð um peningaþvætti með aðkomu aflandsfélaga og rafmynta.

Rannsóknin leiddi í ljós fjármagnshreyfingar með rafmyntum að áætluðu heildarvirði um 700 milljónir bandaríkjadala.

Þá var lagt hald á 25 fasteignir, níu fyrirtæki og 17 ökutæki að metnu virði um 12 milljóna evra.

Framkvæmdastjóri Europol, Catherine de Bolle, segir aðgerðina sýna hvað hægt sé að afreka þegar lögregluyfirvöld sameinast yfir landamæri og heimsálfur.

Sjá má myndskeið af einni handtökunni hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert