Ísrael og Hamas ná saman um friðarsamkomulag

Þessi ljósmynd var tekin fyrr í kvöld er Marco Rubio …
Þessi ljósmynd var tekin fyrr í kvöld er Marco Rubio utanríkisráðherra afhenti Trump miða þar sem sagði að samkomulag væri í nánd. Fáeinum tímum síðar var tilkynnt um að samkomulag hefði náðst. AFP/Jim Watson

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas séu búin að ná saman um fyrsta fasa ítarlegs friðarsamkomulags í 20 liðum sem hann sjálfur lagði nýlega fram

„Ég er mjög stoltur af að tilkynna að hvort tveggja Ísrael og Hamas hafa samþykkt fyrsta áfanga friðaráætlunar okkar,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðil sinn Truth Social.

Sterkur, varanlegur og eilífur friður

„Þetta þýðir að ALLIR gíslarnir verða látnir lausir mjög fljótlega og Ísrael mun draga herlið sitt til baka að umsaminni línu sem verða fyrstu skrefin í átt að sterkum, varanlegum og eilífum friði. Allir aðilar munu fá sanngjarna meðferð! Þetta er FRÁBÆR dagur fyrir araba- og múslimaheiminn, Ísrael, allar nágrannaþjóðir og Bandaríkin, og við þökkum sáttasemjurum frá Katar, Egyptalandi og Tyrklandi sem unnu með okkur að því að gera þennan sögulega og fordæmalausa atburð að veruleika. SÆLIR ERU FRIÐFLYTJENDUR!“

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sagði í kjölfar þess er tilkynnt var um samkomulag í höfn að Ísrael kæmi til með að færa alla þá gísla heim sem enn væru í haldi Hamas á Gasa. „Með guðs hjálp fáum við þá alla heim,“ sagði ráðherrann.

AFP-fréttastofan greinir frá því að milligöngumennirnir séu búnir að staðfesta að samkomulag sé í höfn og að Hamas-samtökin hefðu staðfest „samning um frið á Gasa“.

Fundar með ríkisstjórn sinni á morgun

„Þetta er stór dagur fyrir Ísrael,“ skrifar Netanjahú á samfélagsmiðilinn X. „Á morgun mun ég kalla ríkisstjórnina saman til að samþykkja samkomulagið og færa okkar ástkæru gísla heim. Ég þakka ísraelskum hermönnum með hetjulund og öllum öryggissveitum, með hugrekki þeirra og ósérhlífni höfum við séð þennan dag rísa. Ég þakka Trump forseta frá dýpstu hjartarótum og hans fólki fyrir veitt fulltingi við lausn gísla okkar. Með hjálp almættisins munum við í sameiningu ná markmiðum okkar og ná friði með nágrönnum okkar.“

Netanjahú var í Hvíta húsinu nýlega.
Netanjahú var í Hvíta húsinu nýlega. AFP/Andrew Caballero-Reynolds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert