Joan Kennedy látin

Joan Kennedy árið 1971.
Joan Kennedy árið 1971.

Joan Kennedy, fyrrverandi eiginkona bandaríska öldungardeildarþingmannsins Edwards Kennedy, lést í dag, 89 ára að aldri. 

Steve Kerrigan, formaður Demókrataflokksins í Massachusettsríki, tilkynnti um andlát hennar og sagði að hún hefði látist í svefni. 

Í grein í blaðinu New York Times segir að Joan Kennedy hafi aldrei haft áhuga á stjórnmálum  þótt hún hafi gifst inn í Kennedyfjölskylduna árið 1958. Edward sóttist eftir sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings árið 1962 þegar hann var þrítugur og Joan 28 ára en þá var John bróðir hans  forseti Bandaríkjanna og Robert bróðir hans dómsmálaráðherra.

Eftir að bæði John og Robert voru myrtir jókst þrýstingurinn á Edward að taka upp merki fjölskyldunnar í stjórnmálum en þegar leið á sjöunda áratuginn áttu þau bæði í erfiðleikum með áfengi. Eftir að Edward ók bíl sínum út af brú á Chappaquiddickeyju með þeim afleiðingum að ung kona sem var í bílnum, Mary Jo Kopeche, lést versnaði ástandi til muna. 

Joan og Edward skildu að borði og sæng árið 1978 en hún var samt við hlið hans þegar hann sóttist eftir útnefningu Demókrataflokksins sem forsetaefni árið 1980. Skilnaðurinn tók gildi árið 1983.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert