Lögreglan fær heimild til að skjóta niður dróna

Alexander Dobrindt, innanríkisráðherra Þýskalands.
Alexander Dobrindt, innanríkisráðherra Þýskalands. AFP

Þýska alríkislögreglan mun brátt hljóta heimild til að skjóta niður ómönnuð loftför að sögn Alexander Dobrindt, innanríkisráðherra Þýskalands.

Ummælin lét hann falla í dag eftir að fjöldi dróna hefur sést á sveimi, sem talið er að séu tilraunir Rússa til njósna og ögrunar.

Dobrindt svipti hulunni af nýju lagafrumvarpi og sagði að lögreglan myndi hljóta heimild til að beita nýjustu tækni gegn drónaógnum „til dæmis með rafsegulpúlsum, truflunum og GPS-truflunum en einnig með beinum aðgerðum“.

Hann sagði að þetta þýddi að alríkislögreglunni yrði heimilt í framtíðinni lögum samkvæmt að stöðva og skjóta niður dróna.

Læra af Úkraínu og Ísrael

Ráðherrann bætti við að Þýskaland væri að læra um nútímalegar drónavarnir af bandamönnum sínum, Ísrael og Úkraínu. Hann sagði jafnframt að einnig yrði sett á fót sameiginleg drónavarnarmiðstöð fyrir ríkis- og alríkislögreglu til að þróa stöðuskýrslur „og grípa til sameiginlegra mótaðgerða“.

Í Þýskalandi, sem er einn helsti bandamaður Úkraínu innan NATO í baráttunni gegn Rússum, hefur verið tilkynnt um fjölda dróna á sveimi yfir herstöðvum, iðnaðarsvæðum og annarri mikilvægri innviðauppbyggingu á þessu ári.

Truflaði flugumferð

Um helgina lokuðu drónar, sem sáust yfir borginni München í suðurhluta landsins, alþjóðaflugvellinum í tvígang. Það olli því að þúsundir farþega urðu strandaglópar eftir að flugferðum þeirra var aflýst eða breytt. Svipuð atvik hafa átt sér stað í Danmörku og Noregi.

„Okkur grunar að Rússland standi á bak við flestar þessar drónaflugferðir,“ sagði Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, í viðtali við útvarpsstöðina ARD á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert