Segja Íslending handtekinn í Taílandi

Sinn er siður í landi hverju hvað fréttamyndefni snertir og …
Sinn er siður í landi hverju hvað fréttamyndefni snertir og Channel 8 í Taílandi birti þessa mynd af hinum handtekna ásamt lögreglu en andlit sakborningsins hefur verið máð út. Skjáskot/Channel 8

Vefmiðlar sem halda úti fréttaflutningi frá Taílandi á ensku greina frá því í dag að Íslendingur hafi verið handtekinn í Chon Buri þar í landi eftir gáleysislegan akstur á pallbíl sem hann hafði á leigu, hafi maðurinn þar gert sig sekan um svokallað „drifting“, spólkúnstir sem ungmenni víða um heim stunda til að stytta líftíma bifreiða sinna og hjólbarða.

Alkunna er að erlendir miðlar, ekki síst asískir, hafa um árabil átt það til að rugla þjóðernum Íslendinga og Íra saman, svo ef til vill er rétt að hafa þann fyrirvara á, en svo virðist sem sakborningurinn, sem nú situr í búri lögreglu í Chon Buri í Suður-Taílandi, sjáist á mynd sem að minnsta kosti tveir fjölmiðlar, Asean Now og Thaiger, birta og merkja sjónvarpsstöðinni Channel 8 en andlit meints Íslendings er máð út af myndinni.

Með bílinn á leigu í tvö ár

Skrifar Asean Now að maðurinn hafi sést ástunda háttsemi sína umhverfis Bang Saen-hringtorgið í miklu regni og umferð og við aðstæður sem alls ekki buðu upp á glæfraakstur.

Segir miðillinn enn fremur frá því að lögreglan í Saen Suk hafi flett skráningarnúmeri bifreiðarinnar upp og þá komið í ljós að eigandinn var taílenskur en sá hefði leigt þeim íslenska bílinn í rúm tvö ár. Lagði lögregla hald á ökutækið en ekki kemur fram hvort það sé þar með tekið eignarnámi.

Var Íslendingurinn meinti handtekinn á heimili sínu skömmu eftir brotið og má reikna með 400 til 1.000 bata sekt sem liggur á bilinu 1.540 til 3.850 íslenskar krónur.

Ekki virðist þó sama Jón og séra Jón við taílenskar sektargerðir þar sem Asean Now segir af litáískum manni sem í janúar var sektaður um 12.000 böt fyrir svipað brot á sama stað, en sú upphæð nemur rúmum 46.000 krónum.

Asean Now

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert