Ísraelum ber skylda til að tryggja öryggi og frelsi allra áhafna skipa Frelsisflotans svokallaða sem ísraelsk herskip stöðvuðu og færðu til hafnar í Ísrael er flotinn sigldi í átt að Gasasvæðinu með neyðarvistir til að koma nauðstöddum til hjálpar í ástandinu er þar ríkir.
Þetta segir Irene Khan, sérskipuð talskona Sameinuðu þjóðanna um tjáningarfrelsi, og kveður SÞ krefjast þess að Ísraelar veiti því fólki, sem það hefur svipt frelsi sínu, tafarlausan aðgang að lögfræðiaðstoð og stuðningi sendierindreka.
Samviskan, The Conscience, flaggskip Frelsisflotans flutti 92 farþega, þar á meðal blaðamenn, heilbrigðisstarfsfólk og mannréttindaaðgerðasinna. Um borð voru sextán blaðamenn frá tíu löndum, starfandi hjá á öðrum tug fjölmiðla.
Mótmælandinn Magga Stína var meðal annars um borð í Samviskunni.
„Þessir huguðu blaðamenn lögðu í förina til að sýna palestínskum starfssystkinum sínum samstöðu sem stofnað hafa sér í lífsháska til að greina frá atburðum. Fleiri en 252 palestínskir blaðamenn hafa látið lífið, þar af margir sem urðu beinlínis skotmörk vegna þeirra stríðsglæpa er þeir greindu frá,“ er haft eftir Khan í fréttatilkynningu frá Mannréttindastofnun SÞ.
Enn fremur segir hún alþjóðasamfélagið eiga að krefjast þess af Ísraelum að þeir hleypi fréttamönnum alþjóðlegra fjölmiðla inn á Gasasvæðið sem þeir hafa lokað öllum aðgangi að og tryggi um leið öryggi þeirra þar.
„Þeir sem stöðvaðir voru í för sinni [með Frelsisflotanum] hafa rétt til að tjá sig og rétt til að lýsa yfir samstöðu með Palestínumönnum og koma þeim til hjálpar. Ísrael ber skylda til að virða þau réttindi,“ segir Khan.