Fyrirskipa tafarlausan brottflutning barna

Stjórnvöld í Úkraínu ætla að flytja börn í burtu frá …
Stjórnvöld í Úkraínu ætla að flytja börn í burtu frá víglínunni við Kramatorsk. AFP

Stjórnvöld í Úkraínu tilkynntu í dag að ákveðið hefði verið að flytja á brott börn og forráðamenn þeirra frá bæjum og þorpum í og við víglínuna við Kramatorsk vegna sífellt fleiri drónaárása Rússa.

Kramatorsk, sem hafði um 147.000 íbúa fyrir stríð, er um 20 kílómetrum frá víglínunni í Donetsk-héraði, þar sem Kremlverjar hafa látið til sín taka frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022.

Í september sama ár lýstu Kremlverjar því yfir að þeir hefðu innlimað iðnaðarhéraðið ásamt þremur öðrum þrátt fyrir að hafa ekki fullt hernaðarlegt vald yfir þeim.

Yfirgefa svæðið tafarlaust

„Vegna versnandi öryggisástands á ákveðnum svæðum í samfélagi Kramatorsk hefur verið tilkynnt um skyldubundinn brottflutning fjölskyldna með börn,“ sagði borgarráðið á samfélagsmiðlum.

„Íbúar þessara byggðarlaga, sérstaklega fjölskyldur með börn sem því miður dvelja þar enn, verða að yfirgefa svæðið tafarlaust í fylgd fulltrúa brottflutningsþjónustunnar,“ bætti ráðið við.

Yfirvöld sögðu að rússneskar hersveitir hefðu aukið árásir með smáum og ódýrum drónum sem hafa breytt eðli bardaga á víglínunni verulega á undanförnum mánuðum.

Kramatorsk er stærsta borgaralega miðstöðin og setuliðsborgin í Donetsk-héraði sem enn er undir stjórn Úkraínu. Aðskilnaðarsinnar, studdir af Kreml, náðu henni á sitt vald um stutt skeið árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert