Gíslarnir frelsaðir á næstu sólarhringum

Mynd af gísl í haldi Hamas sem samtökin birtu fyrr …
Mynd af gísl í haldi Hamas sem samtökin birtu fyrr á árinu. Skjáskot/Twitter

Hryðjuverkasamtökin Hamas segjast ætla sleppa úr haldi eftirlifandi gíslum á Gasa sem hluti af friðarsamkomulaginu sem náðst hefur milli Hamas og Ísrael. 

Gegn því að sleppa þeim gíslum sem eru á lífi, sem talið er að séu 20 talsins, fá þeir 2.000 palestínska fanga sem eru í ísraelskum fangelsum. 

Samkvæmt Hamas verður gíslunum sleppt úr haldi innan við 72 tímum eftir að búið er að skrifa undir friðarsamkomulagið, en samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar verður skrifað undir fyrsta fasa samkomulagsins í dag, fimmtudag, í Egyptalandi. 

Trump: Ísrael mun draga herlið sitt til baka

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti rétt fyrir miðnætti að Ísrael og Hamas hefðu náð saman um fyrsta fasa ítarlegs friðarsamkomulags í 20 liðum sem hann sjálfur lagði nýlega fram.

Gíslarnir hafa verið í haldi hryðjuverkasamtakanna frá 7. október 2023 þegar Hamas framdi fjöldamorð í Ísrael og tók 251 mann gíslingu.

„Þetta þýðir að ALLIR gíslarnir verða látnir lausir mjög fljótlega og Ísrael mun draga herlið sitt til baka að umsaminni línu sem verða fyrstu skrefin í átt að sterkum, varanlegum og eilífum friði. Allir aðilar munu fá sanngjarna meðferð! Þetta er FRÁBÆR dagur fyrir araba- og múslimaheiminn, Ísrael, allar nágrannaþjóðir og Bandaríkin, og við þökkum sáttasemjurum frá Katar, Egyptalandi og Tyrklandi sem unnu með okkur að því að gera þennan sögulega og fordæmalausa atburð að veruleika. SÆLIR ERU FRIÐFLYTJENDUR,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert