Ríkisstjórn Ísraels kemur saman á næstu klukkustundum til að greiða atkvæði um fyrsta fasa friðarsamkomulagsins sem Bandaríkjamenn lögðu til. Ef það verður samþykkt gerir það lausn gísla Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Gasa mögulega og þeirra Palestínumanna sem Ísraelsmenn hafa tekið höndum.
Vopnahlé mun taka gildi um leið og stjórnvöld í Ísrael hafa samþykkt fyrsta fasa samningsins um friðarsamkomulag á Gasa og frelsun gíslanna.
Aðalsamningamaður Hamas segir að samtökin hafi fengið tryggingu frá Bandaríkjunum og sáttasemjurum sem staðfesti að „stríðinu sé lokið fyrir fullt og allt.“
„Í dag tilkynnum við að samkomulag hafi náðst um að binda enda á stríðið og árásirnar á þjóð okkar og hefja framkvæmd varanlegs vopnahlés og brottflutnings hernámsliðsins,“ sagði Khalil Al Hayya í sjónvarpsávarpi fyrir skömmu.
CNN greinir frá því að ríkisstjórnin kjósi um að samþykkja fyrsta fasa friðarsamkomulagsins, sem felur það í sér að á næsta sólarhring muni Ísraelsher hörfa aftur fyrir hina svokölluðu gulu línu á Gasa.
Innan þriggja sólarhringa frá því að herinn hörfi til baka muni 20 gíslar á lífi og aðrir 28 sem týnt hafa lífi, þar á meðal fjórir sem ekki hafa ísraelskt ríkisfang, verða sleppt úr haldi Hamas á Gasa.
Á móti munu Ísraelar hefja að sleppa Palestínumönnum sem þeir hafa tekið höndum og dvelja í ísraelskum fangelsum eða í haldi Ísraelhers.
Í þeim hópi verða 250 fangar sem afplána lífstíðarfangelsi og verður sleppt til Gasa eða annað utan Ísraels. Ísraelar munu einnig sleppa 1.700 íbúum Gasa og 22 undir lögaldri, sem áttu ekki þátt í árásum Hamas á Ísrael 7. október 2023 en voru engu að síður hneppt í varðhald í kjölfarið.
Líkamsleifum 360 manna sem Ísraelar hafa skilgreint sem hryðjuverkamenn verður einnig skilað.