Hefði verið hægt að stöðva stríðið fyrr

Varsen Aghabekian utanríkisráðherra Palestínu telur eðlilegt að palestínska heimastjórnin verði með í ráðum yfir Gasa. Með því sé hægt að tryggja eitt ríki, eina ríkisstjórn og eina stjórnarskrá.

Þetta sagði ráðherrann á blaðamannafundi í stjórnarráðinu eftir fund hennar með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrín Gunnarsdóttur utanríkisráðherra.

Hryðjuverkasamtökin Hamas hafi verið við stjórn á Gasa síðan árið 2007.

Á fundinum fóru ráðherrarnir yfir víðan völl og ræddu m.a. með hvaða hætti Ísland gæti stutt við uppbyggingu á Gasa.

Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu.
Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland geti aðstoðað með þeim hætti sem henti

Aðspurð segir Aghabekian að allur heimurinn þurfi að aðstoða Palestínu við að byggja aftur upp Gasa. Hún segir að Ísland geti aðstoðað með þeim hætti sem henti best.

„Ísland þarf að finna út hvað það getur gert best og bjóða fram þá þekkingu. Það eru verkefni sem við þurfum að innleiða og það væri þess virði fyrir Ísland að skoða þau verkefni og sjá hvar þeirra sérþekking nýtist best,“ segir Aghabekin.

Þetta stríð hefur verið í gangi í tvö ár og er nú vonandi á enda. Af hverju telur þú að ekki hafi verið bundið enda á það fyrr?

„Það hefði átt að stöðva það fyrr, það var hægt. Við vitum öll að það var hægt. Út af einni ástæðu eða annarri var það ekki gert en nú er nýr dagur. Við skulum segja að við horfum nú til framtíðar sem vonandi tryggir frið fyrir alla á svæðinu.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í gær að Ísrael og Hamas hafi samið um fyrsta fasa friðarsamkomulags í 20 liðum. Friðarsamkomulagið hefur þó ekki tekið gildi en beðið er eftir samþykki ísraelsku ríkisstjórnarinnar.

Í samkomulaginu er m.a. kveðið á um lausn allra gísla í haldi Hamas og lausn palestínskra fanga í haldi Ísraela.

Hægt er að horfa á blaðamannafundinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert