Katrín prinsessan af Wales varar við ofnotkun snjallsíma og tölvuskjáa. Hún segir tækin skapa tengslarof milli fjölskyldumeðlima sem sé þegar farið að kveða á sér.
Katrín segir tækin trufla fólk stöðugt sem sundri athygli og grafi undan þeim tíma sem fjölskyldur verja saman.
Þetta kom fram í ritgerð sem Katrín skrifaði í samstarfi við Robert Waldinger, prófessor í geðlækningum við Harvard-háskóla.
„Við erum líkamlega til staðar en andlega fjarverandi. Ófær um að taka fullan þátt í samskiptum við fólkið beint fyrir framan okkur,“ skrifar Katrín í ritgerðinni.
Ritgerðin er hluti af herferð hennar sem fjallar um menntun á fyrstu æviárum fólks.
Prinsessan segir að rannsóknir sýni fram á mikilvægi þess að skapa heilbrigð og hlý tengsl innan fjölskyldna og milli fólks, sem hafi ævilangan ávinning fyrir líkamlega og andlega heilsu.
„Þegar við lítum á símana okkar í miðjum samræðum, skrunum í gegnum samfélagsmiðla í fjölskylduverðinum eða svörum tölvupóstum á meðan við leikum við börnin okkar, erum við ekki bara að láta trufla okkur, við erum að draga til baka það grundvallarform ástar sem mannleg tengsl krefjast,“ skrifar hún.
Eiginmaður hennar, Vilhjálmur prins, greindi nýlega frá því í viðtali að ekkert barn þeirra hjóna ætti snjallsíma. Yngsta barn þeirra er sjö ára og það elsta tólf ára.
„Við erum að ala upp kynslóð sem er kannski „tengdari“ en nokkur önnur í sögunni en er um leið einangraðri, einmanalegri og verr í stakk búin til að mynda þau hlýlegu og innihaldsríku tengsl sem rannsóknir segja okkur að séu grundvöllur heilbrigðs lífs,“ skrifar prinsessan.