Letitia James ákærð

CBS News greindi frá því í vor að dómsmálaráðuneytið hefði …
CBS News greindi frá því í vor að dómsmálaráðuneytið hefði hafið sakamálarannsókn á hendur James vegna meintra fasteignalánasvika. AFP/Spencer Platt

Ákærukviðdómur í austurhluta Virginíu hefur tekið ákvörðun um að ákæra Letitiu James, saksóknara í New York, í kjölfar rannsóknar dómsmálaráðuneytis Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Um er að ræða aðra ákæruna á stuttum tíma sem andstæðingur Donalds Trumps má sæta af hálfu yfirvalda en sami ákærukviðdómur ákvað fyrir um tveimur vikum að ákæra James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, fyrir meintar rangar yfirlýsingar gagnvart Bandaríkjaþingi.

Meint fasteignalánasvik

Í september hvatti Trump dómsmálaráðherrann Pam Bondi opinberlega til að hefja rannsókn á Comey, James og Adam Schiff, öldungadeildarþingmanni Demókrataflokksins í Kaliforníu, en öll hafa þau verið háværir gagnrýnendur forsetans.

Ekki liggur fyrir hvaða ákærum James stendur frammi fyrir en CBS News greindi frá því í vor að dómsmálaráðuneytið hefði hafið sakamálarannsókn á hendur henni vegna meintra fasteignalánasvika.

Síðar var rannsóknin útvíkkuð svo hún næði einnig til meðferðar skrifstofu James á rannsókn gegn fyrirtækjasamsteypu Trump. Rannsókn sem lauk með 450 milljón dollara sekt á Trump og Trump Organization, regnhlífarfélag Trump-fjölskyldunnar um fjölda fyrirtækja.

Dómstóll sneri síðar við sektardóminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert