Lögregla í Antwerpen í Belgíu handtók í dag þrjá unga menn vegna gruns um að þeir legðu á ráðin um að gera drónaárás á Bart De Wever forsætisráðherra í nafni jihad, hins heilaga stríðs íslamista.
Voru handtökurnar hluti rannsóknar máls sem snýst um „tilraun til hryðjuverkadráps og þátttöku í starfsemi hryðjuverkahóps“ eftir því sem Ann Fransen ríkissaksóknari greindi frá á blaðamannafundi í dag.
„Ákveðin atriði benda til þess að grunuðu hafi ætlað sér að framkvæma jihad-innblásna hryðjuverkaárás á stjórnmálamenn,“ sagði saksóknari á fundinum og bætti því við að mennirnir væru einnig grunaðir um að ráðgera smíði dróna sem borið gæti farm sem grunur lék á að yrði sprengiefni.
Maxime Prevot utanríkisráðherra sagði fregnirnar „reiðarslag“ og lofaði rannsóknarstarf lögreglu í hástert og skjót viðbrögð sem fyrirbyggt hefðu „hið versta“ auk þess sem Theo Francken varnarmálaráðherra sendi forsætisráðherranum stuðningsyfirlýsingu.
