Spænska veðurstofan Aemet hefur gefið út rauða veðurviðvörun fyrir Costa Blanca og Murcia við austurströnd Spánar frá klukkan 10 að staðartíma í fyrramálið og til miðnættis þar sem ráð er gert fyrir miklu hvassviðri og úrkomu.
Nær viðvörunin til alls Alicante-héraðsins sem nær frá Benidorm í norðri og allt suður til Pilar de la Horadada en innan þess svæðið liggur Vega Baja-svæðið þar sem stormurinn Dana geisaði í september 2019 með miklu tjóni.
Alls er 51 sveitarfélag skilgreint á hættusvæði vegna veðursins og spá veðurfræðingar Aemet því að samanlögð úrkoma geti náð allt að 180 millimetrum á tólf klukkustundum. Þegar hefur úrkoma verið mikil í Alicante í dag og hefur rauðgul viðvörun verið þar í gildi í dag.
Eftir því sem loftslagsdeild Háskólans í Alicante greinir frá er hætta á verulegu hvassviðri í Vega Baja og á Campo de Cartagena-Mar Menor-svæðinu. Gerir deildin þó þann fyrirvara að spár geti breyst snögglega og ráðleggur almenningi að fylgjast með breytingum.
Verða skólar lokaðir í Murcia-héraðinu á morgun vegna spárinnar.
