Ríkisstjórn Ísraels samþykkti rétt í þessu formlega fyrsta fasa friðarsamkomulagsins sem Bandaríkjamenn lögðu til.
Stríðandi fylkingar höfðu undirritað samkomulagið í morgun með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar Ísraels, sem nú er í höfn.
Í yfirlýsingu frá forsætisráðuneyti Ísraels segir að ríkisstjórn Ísraels hafi samþykkt samkomulag sem tryggir lausn allra gísla sem í haldi eru á Gasa, bæði þá sem lifandi eru og þá sem týnt hafa lífi.
Vopnahlé tekur gildi á Gasa og á næsta sólarhring mun Ísraelsher hörfa aftur fyrir hina svokölluðu gulu línu, en þá heldur Ísraelsher áfram stjórn á um 53% af Gasa. Ef haldið verður lengra áfram með friðarsamkomulagið mun herinn hörfa enn lengra.
Aðalsamningamaður Hamas hefur sagt að samtökin hafi fengið tryggingu frá bæði Bandaríkjunum og sáttasemjurum sem staðfesti að „stríðinu sé lokið fyrir fullt og allt.“
Fréttin hefur verið uppfærð.

