Donald Trump Bandaríkjaforseti segist trúa því allir gíslarnir sem eru í haldi á Gasa muni snúa aftur á mánudaginn eftir að Ísrael og Hamas hryðjuverkasamtökin náðu samkomulagi um vopnahlé seint í gærkvöld.
„Við teljum að allir gíslarnir, lifandi og látnir, komi á mánudaginn og það lítur út fyrir að það gerist," sagði Trump í viðtali við Fox News.
Ísrael og Hamas náðu samkomulagi um fyrsta fasa ítarlegs friðarsamkomulags í 20 liðum sem Trump lagði nýlega fram en í vikunni voru tvö ár liðin frá því að stríðið hófst með grimmilegri árás Hamas á Ísrael þar sem 1.100 Ísraelsmenn voru drepnir.
Í samkomulaginu felst að allir gíslarnir verða látnir lausir og Ísrael muni draga herlið sitt til baka að umsaminni línu sem verða fyrstu skrefin í átt að sterkum og varanlegum og eilífum friði að sögn Trumps.
„Þetta snýst meira en bara um Gasa, þetta er friður í Miðausturlöndum,“ sagði Trump við Fox News og bætti við að hann trúi því að Íran muni í raun verða hluti af öllu friðarferlinu.
„Heimsbyggðin hefur sameinast um þetta samkomulag og það er frábært fyrir Ísrael, frábært fyrir múslíma og arabísku þjóðirnar," sagði Bandaríkjaforseti.
Trump segir að Gasa verði staður sem verður endurbyggður og önnur lönd í kringum hann muni hjálpa við uppbygginguna.

