Braut gegn 17 stúlkum á Snapchat

Þrítugur Norðmaður er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkum undir lögaldri …
Þrítugur Norðmaður er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkum undir lögaldri gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat. AFP/Kirill Kudryavtsev

Þrítugur Norðmaður frá Raumaríki hefur verið ákærður fyrir að brjóta kynferðislega gegn sautján stúlkum á aldrinum tólf til fimmtán ára gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat. Áttu brotin sér stað tímabilið frá apríl 2018 til mars 2023.

„Hér er án alls vafa alvarleg ákæra á ferð sem lýtur að fjölda kynferðisbrota gegn ungum táningsstúlkum,“ segir Jeanette Svendsen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í austurumdæminu í Noregi, við norska ríkisútvarpið NRK.

Það var faðir eins fórnarlambanna sem komst á snoðir um það sem var á seyði í október 2022 og hafði samband við norsku rannsóknarlögregluna Kripos. Hafði sá uppgötvað að dóttir hans hafði fengið peninga millifærða inn á bankareikning sinn frá óþekktum aðila gegnum greiðsluforritið Vipps sem notað er í Noregi. Komst hann í kjölfarið að því að stúlkan hafði rætt við manninn á Snapchat.

Viðurkennir flest ákæruatriðin

Gegnum Vipps fann lögreglan símanúmer ákærða og þegar hún leitaði að því nafni sem hann notaði á Snapchat í sínum skrám kom í ljós að maðurinn var þegar skráður þar vegna ábendinga sem áður höfðu borist um hann.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ræddi við mbl.is um kynferðisbrot á samfélagsmiðlum í febrúar í viðtali sem tilheyrði greinaflokki um netglæpi.

Þær ábendingar beindust að því sama, meintum kynferðisbrotum gegn börnum, og handtók lögregla manninn í mars 2023. Er hann nú ákærður fyrir þrjár nauðganir gegnum Snapchat, fjölda tilrauna til nauðgunar þar sem þrjú börn áttu í hlut, tilraunir til að fá þrjár stúlkur undir lögaldri til að framkvæma kynferðisathafnir, kynferðisathafnir gegnum samskiptaforritið með sjö börnum, tilraun til að framkvæma kynferðisathafnir með átta börnum og fjölda óviðeigandi samskipta við börn undir sextán ára aldri auk þess að greiða börnum fyrir framkvæmd kynferðisathafna, oft mjög lágar upphæðir, allt niður í 20 norskar krónur sem nemur rúmum 200 íslenskum krónum.

Að sögn verjanda mannsins, Gard A. Lier, viðurkennir hann flest ákæruatriðin enda hefur lögregla undir höndum ógrynni sönnunargagna, svo sem afrit af samtölum ákærða við fjölda barna.

Foreldrar veri forvitnir

Segir Svendsen ákæruvaldsfulltrúi málið endurspegla visst samfélagslegt vandamál, börn, sem æsku sinnar vegna séu í viðkvæmri stöðu gagnvart fullorðnum, séu oft auðveld bráð. Bendir hún á að í krafti nútímatækni séu kynferðisglæpamenn komnir inn fyrir veggi heimila án þess að foreldrar hafi hugmynd um það. Börnum sé nauðgað heima hjá sér gegnum tölvuleiki og samfélagsmiðla, segir Svendsen, en samkvæmt norskum hegningarlögum teljast öll kynferðisleg samskipti fullorðinna við börn undir fjórtán ára aldri nauðgun.

Svendsen segir að á samfélagsmiðlum sem börn noti sé einnig að finna fullorðna sem misnoti börn. „Foreldrar eiga að vera forvitnir um við hverja börnin þeirra hafa samskipti á Snapchat og öðrum samskiptamiðlum,“ segir ákæruvaldsfulltrúinn og hvetur foreldra enn fremur til þess að fylgjast með bankareikningum og Vipps-forritum barnanna. Taki þau við greiðslum frá óþekktum aðilum þurfi að skoða það og bendir hún að lokum á að börn fái brotamenn gjarnan til að millifæra peninga inn á reikninga vina sinna eða vinkvenna sem svo millifæri á sjálft fórnarlambið.

NRK

Aftenposten (mál 18 ára manns sem braut gegn börnum í Svíþjóð)

TV2 (Kripos sendi frá sér aðvörun vegna Snapchat í fyrra)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert