Dyravörður á skemmtistað við Stureplan í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi varð fyrir skoti um miðnætti í nótt, aðfaranótt föstudags, þar sem hann var við störf og hefur lögregla borgarinnar handtekið pilt á táningsaldri sem grunaður er um að vera annar tveggja manna sem hleyptu af skotvopnum á svæði þar sem fjöldi fólks var úti á lífinu.
Gaf Niklas Berglund ákæruvaldsfulltrúi lögreglu sænska ríkisútvarpinu SVT þær upplýsingar að sár dyravarðarins væru ekki lífsháskaleg og gefur hann auk þess upp að hinn handtekni liggi undir grun um tilraun til manndráps og vopnalagabrot.
Að sögn Berglunds sáust nokkrir menn forða sér hlaupandi frá vettvangi í kjölfar skotárásarinnar þótt of snemmt sé til að segja um hvort þeir séu sekir í málinu sem hann kveðst telja einangrað atvik en það er sænska dagblaðið Aftonbladet sem kveðst hafa það eftir heimildarmönnum að minnst tveir gerendur komi að málinu.
Lokaði lögregla svæði við Stureplan af vegna rannsóknar tæknideildar í nótt og hefur síðan auk annars unnið að því að ræða við vitni að atburðinum og fara yfir upptökur öryggismyndavéla á torginu og í námunda við það.
