Enn hefur ekki náðst samkomulag um opnun bandarískra ríkisstofnana sem munu vera áfram lokaðar næstu tvær vikurnar. Áhrifin má finna víða og hefur verið mikill hiti í þingmönnum demókrata og repúblikana sem hafa deilt hart á göngum Bandaríkjaþings vegna málsins.
Ástandið sem hefur skapast hefur m.a. sett launagreiðslur hermanna í uppnám sem er án fordæma.
Þrýstingur á Mike Johnson, forseta fulltrúadeildarinnar sem er repúblikani, hefur aukist en farið hefur verið fram á það að hann kalli saman fulltrúadeild þingsins til að halda neyðaratkvæðagreiðslu um að tryggja að minnsta kosti launagreiðslur til hermanna.
En Johnson hefur haldið sínu striki og hann sagði við fréttamenn í gær að hann væri „staðráðinn í að halda fulltrúadeildinni lokaðri eins lengi og þyrfti til að þrýsta á demókrata í öldungadeildinni.“
Þar sem öldungadeildin kemur ekki saman fyrr en á þriðjudag þá þurfa ríkisstarfsmenn enn að bíða eftir því hvenær launagreiðslur þeirra verða virkjaðar á ný.
Nú er einnig útlit fyrir að 1,3 milljónir starfandi hermanna fái ekki launin sín greidd á miðvikudag. Það er eitthvað sem hefur ekki gerst í nútímasögu Bandaríkjanna.
Repúblikanar kenna demókrötum um ástandið en þó er einnig farið að reyna á þolinmæði meðal repúblikana í fulltrúadeildinni. Þingflokksformaðurinn Elsie Stefanik hefur t.d. kallað eftir atkvæðagreiðslu um frumvarp til að tryggja laun hermanna meðan á lokuninni stendur.
Þar sem langvinn lokun virðist líklegri með hverjum deginum hafa þingmenn beint sjónum sínum að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og vonast til að hann grípi inn í og leysi úr pattstöðunni.
Starfsemi ríkisstofnana sem ekki telst nauðsynleg stöðvaðist eftir að frestur til fjármögnunar rann út 30. september. Demókratar í öldungadeildinni hafa ítrekað stöðvað ályktun repúblikana um að opna alríkisstofnanir á ný.
Ágreiningurinn snýst um að repúblikanar neita að fella inn ákvæði í frumvarpið sem tekur á niðurgreiðslum sem eru að renna út en þær gera 24 milljónum Bandaríkjamanna kleift að hafa efni á sjúkratryggingum.
Sumir repúblikanar í öldungadeildinni eru opnir fyrir því að lofa demókrötum atkvæðagreiðslu um framlengingu á auknum skattaafslætti vegna iðgjalda, sem rennur út um áramót.
En forysta beggja fylkinga hefur neitað að samþykkja málamiðlunina. Repúblikanar eru tregir til að verða við kröfum demókrata um tryggingu fyrir því að málið fái afgreiðslu í báðum deildum þingsins.
Trump hefur að mestu haldið sig til hlés og einbeitt sér að vopnahléssamningnum á Gasa og að senda alríkishermenn til að kveða niður mótmæli í borgum sem stýrt er af demókrötum, svo sem Chicago og Portland.
„Miklar tilfinningar eru í gangi. Fólk er í uppnámi – ég er í uppnámi,“ sagði Johnson, sem lenti í deilum við öldungadeildarþingmenn demókrata fyrir utan skrifstofu sína í fyrradag vegna lokunarinnar.
Sama dag áttu sér stað fimm mínútna löng og hörð orðaskipti milli Mike Lawler, þingmanns repúblikana, og Hakeem Jeffries, leiðtoga minnihlutans í fulltrúadeildinni.
„Er það betra fyrir þá að vera aðskildir í augnablikinu?“ sagði Johnson. „Já, það er það sennilega, satt best að segja.“