Maria Corina Machado, óttalaus aðgerðasinni sem hrífur fólk með sér eins og rokkstjarna, er lykilmanneskja í andstöðunni við ríkisstjórn Nicolas Maduro, forseta Venesúela, sem hefur stýrt landinu með harðri hendi.
Machado hefur verið lýst sem la libertadora og er þar vísað í venesúelsku sjálfstæðishetjuna Simon Frelsishetju [e. The Liberator] Bolivar.
Machado hlaut Nóbelsverðlaunin í morgun fyrir starf sitt í þágu lýðræðis.
Henni var meinað að bjóða sig fram gegn Maduro í forsetakosningunum árið 2024 og var í framhaldinu fangelsuð en sleppt lausri eftir að hafa reynt að hvetja til aukinna mótmæla gegn venesúelska leiðtoganum.
Í júlí hvatti hún til „leynilegrar” andstöðu gegn Maduro þegar ár var liðið síðan hann hlaut umdeilt endurkjör.
Í margar vikur hefur orðrómur verið uppi á samfélagsmiðlum um að Machado, sem er nú í felum, haldi til í bandaríska sendiráðinu í Venesúela.
Samkvæmt skoðanakönnunum er Machado langvinsælasti stjórnmálamaðurinn í Venesúela.
Skömmu fyrir kosningarnar þurfti hún að sætta sig við að taka pólitískt skref til baka og berjast fyrir kjöri hins lítt þekkta erindreka Edmundo Gonzalez Urrutia eftir að nafn hans var á síðustu stundu sett á kjörseðlana í stað hennar. Machado hafði unnið forskosningar stjórnarandstöðunnar með 90% atkvæða árið 2023 en yfirvöld, hliðholl Maduro, voru fljót að ógilda kjörið hennar.
Í staðinn barðist hún fyrir kjöri Urrutia, fór með honum á kosningafundi og baðaði sig í sviðsljósinu, sem hann forðaðist aftur á móti.
Á kosningafundum hefur Machado ávallt klæðst hvítum fötum með talnabönd um hálsinn sem hún hefur fengið að gjöf frá áköfum stuðningsmönnum sínum.
Þeir hafa flykkst að henni til að fá að snerta hana, fá hana til að halda á börnum þeirra, látið hana hafa handskrifaðar stuðningsyfirlýsingar eða gefið henni hafnarboltahúfur eða blóm, eins og um rokkstjörnu sé að ræða.
„Si, se puede!” (Já, við getum!), hrópa þeir á kosningafundum hennar.
Þrátt fyrir alla spennuna í kringum Machado skipti það litlu máli þegar kjördagurinn rann upp í fyrra og Maduro lýsti sig sigurvegara.
Evrópusambandið og fjölmörg önnur lönd hafa viðurkennt Gonzalez Urrutia sem réttkjörinn forseta Venesúela.
Tilkynningin um Nóbelsverðlaunin kemur á sama tíma og Bandaríkin hafa haldið úti auknum árásum á alþjóðlegum hafsvæðum þar sem þau segjast berjast gegn eiturlyfjasmyglurum.
Bandaríski herinn hefur drepið að minnsta kosti 21 manneskju á undanförnum vikum.
Bandarísk stjórnvöld saka Maduro um að stjórna eiturlyfjahring og viðurkenna hann ekki sem réttmætan leiðtoga Venesúela.
Í sameiginlegu myndskeiði sem var birt í síðasta mánuði sögðust Machado og Gonzalez Urrutia styðja aukinn þrýsting Bandaríkjahers á ríkisstjórn Maduros og sögðu hann nauðsynlegan til að endurheimta fullveldi Venesúela.
Þau sökuðu ríkisstjórn Maduros um að smygla „eiturlyfjum, steintegundum, málmi, vopnum og manneskjum og einnig um marga aðra glæpi.”
Ólíkt Gonzalez Urrutia, sem hefur verið í útlegð á Spáni eftir að hafa fengið hótanir í kjölfar forsetakosninganna, ákvað Machado að vera áfram í Venesúela til að leiða stjórnarandstöðuna á sama tíma og hún er í felum.
Hún á það til að birtast óvænt, til dæmis á palli vörubíls á götuhorni þar sem hún hefur haldið ræðu áður en hún hefur þurft að flýja í burtu á mótorhjóli til að forðast handtöku.
Machado, sem stundaði nám í verkfræði, fæddist í höfuðborginni Caracas. Hún hóf stjórnmálaferil sinn árið 2002 sem formaður samtakanna Sumate (Gangið til liðs við okkur) sem börðust fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að fjarlægja læriföður Maduros, Hugo Chavez, frá völdum.
Machado var sökuð um landráð vegna þessarar baráttu og fékk morðhótanir, sem varð til þess að hún ákvað að senda tvo unga syni sína og dóttur úr landi.
Henni var bannað að bjóða sig fram til embættis forseta árið 2023. Einnig var henni meinað að fljúga og ferðast vítt og breitt um landið til að taka þátt í kosningabaráttu Gonzalez Urrutia.
Machado hafði lofað því að binda enda á sífellt grimmara stjórnarfar í Venesúlea. Síðustu ár þar í landi hafa einkennst af alvarlegum efnahagsvanda sem hefur orðið til þess að sjö milljónir manna, næstum fjórðungur þjóðarinnar, hefur flutt úr landi.
„Við ætlum að frelsa landið og ná börnunum okkar aftur heim,” sagði hún.
Í október í fyrra hlutu Machado og Gonzalez Urrutia mannréttindaverðlaun Evrópuráðsins fyrir að hafa „haldið á lofti á óttalausan hátt” gildum réttlætis, lýðræðis og laga og reglna.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
