Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur skipað Sebastien Lecornu aftur sem forsætisráðherra, fjórum dögum eftir að hinn síðarnefndi sagði af sér embætti.
Í tilkynningu frönsku forsetahallarinnar sagði að Lecornu hefði verið skipaður sem forsætisráðherra og fengið það hlutverk að mynda nýja ríkisstjórn.
Lecornu sagði á samfélagsmiðlum sínum að hann hefði samþykkt skipan sína í embætti vegna skyldurækni, og lagði áherslu á að nú þyrfti að skera á þann hnút sem hlaupinn væri í frönsk stjórnmál.
Hét Lecornu því að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til þess að fá samþykkt fjárlög fyrir næsta ár á franska þinginu og að koma reglu á fjármál franska ríkisins væri áfram forgangsatriði fyrir framtíð Frakklands.
Þá sagði Lecornu að þeir sem yrðu útnefndir í ríkisstjórn sína yrðu að setja á hilluna áform sín um að bjóða sig fram til forseta, en næst á að kjósa í embættið árið 2027.
