Norðmenn þróa sprengjudróna

Rift Dynamics í norska bænum Sandnes í Rogaland-fylki framleiðir drónanna …
Rift Dynamics í norska bænum Sandnes í Rogaland-fylki framleiðir drónanna fyrir herinn og hér má sjá dróna frá fyrirtækinu, þó án sprengihleðslu, en í frétt NRK sem hlekkjuð er neðan við textann má sjá mynd af dróna með sprengihleðslu. Ljósmynd/Rift Dynamics

Norski herinn gerir nú tilraunir með dróna hlaðna sprengiefni sem ætlað er að vera nokkurs konar nútímaútgáfa af sjálfsmorðssprengjuvélum Japana í síðari heimsstyrjöldinni fyrir utan sjálfsmorðið sem ekki er lengur hluti af vígaferlinu.

Er drónum þessum, sem einum og hálfum milljarði norskra króna hefur verið veitt í að þróa, þar með ætlað að fljúga á skotmörk sem til stendur að tortíma og hafa tilraunir hersins undanfarið snúist um að fjarstýra þessari tiltölulega nýlegu viðbót við tækniflóru – og nú upp á síðkastið ógnarímynd – heimsins á gamla úr sér gengna bryndreka og fjallshlíðar til að kanna hvers drónarnir eru megnugir við raunverulegar aðstæður.

Úkraínumenn þjálfa Norðmenn

Það eru norsku hergagnaframleiðendurnir Rift Dynamics og Nammo sem sameinast um smíði búnaðarins og kemur sprengjuhleðsla drónanna frá Nammo.

„Þeir verða æ fullkomnari og síður viðkvæmir fyrir veðri og gagnárásum svo á þessum vettvangi þurfum við að vera með,“ segir Sigurd Løvland Harsheim ofursti við norska ríkisútvarpið NRK og Tore O. Sandvik varnarmálaráðherra kveður Norðmenn taka þátt í þróun á alþjóðavettvangi sem meðal annars byggi á samstarfi við úkraínska herinn sem þjálfað hafi þann norska í drónanotkun.

Þá segir Lars Lervik, æðsti yfirmaður norska landhersins, að sú tíð sé í nánd að Norðmenn komi sér upp „drónasvermum“, raunar verði þeir fyrstu tilbúnir þegar í næstu viku, það er að segja fjöldi dróna í samflugi sem bjóði upp á mikla árásar- og varnarmöguleika. „Með þeim getum við útvíkkað aðgerðasvið okkar. Við drögum úr áhættu hermanna okkar, öðlumst aukinn skotkraft og verðum fundvísari á skotmörk innan raða fjenda okkar,“ segir Lervik.

Drónar öðlast greind

Six Robotics heitir fyrirtæki sem framleiðir dróna fyrir norska herinn og útskýrir Christian Fredrik Eggesbø framkvæmdastjóri þar kosti drónasverma.

„Með þeim má hafa eftirlit með víðfeðmum landsvæðum án þess að mikinn mannskap þurfi til og þeir bjóða upp á þann möguleika að einn hermaður stýri mörgum drónum,“ segir hann og minnir enn fremur á gervigreindina sem nú sækir fram á flestum sviðum mannlegs athafnalífs.

„Drónar öðlast greind og fara að skilja hvað það er sem þeir sjá auk þess að geta átt í samstarfi við aðra dróna sem er einstakt. Við erum í stakk búin til að laga okkur að breytingum á vígvöllum,“ segir Eggesbø um drónaverkefni norska hersins.

NRK
VG
Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert