Öflugur jarðskjálfti á Filippseyjum

Starfsmenn í verslunarmiðstöð safnast saman fyrir utan byggingu í Davao …
Starfsmenn í verslunarmiðstöð safnast saman fyrir utan byggingu í Davao borg, á suðurhluta eyjarinnar Mindanao eftir að öflugur jarðsjálfti reið yfir svæðið. AFP

Öflugur jarðskjálfti af stærðinni 7,4 reið yfir suðurhluta Filippseyja um klukkan 10 í morgun að staðartíma. 

Skjálftinn átti sér upptök  um 20 kílómetrum frá bænum Manay á Mindanao-eyju. Jarðskjálftastofnun Filippseyja gaf út flóðbylgjuviðvörun en hún var síðan afturkölluð.

Að minnsta kosti einn er látinn eftir að veggur hrundi í borginni Mati, stærsta þéttbýliskjarna nærri upptökum skjálftans, að sögn lögreglu en yfirvöld á Filippseyjum ráðlögðu fólki á strandsvæðum að yfirgefa þau og flytja sig lengra inn í landið.

Fyrir 11 dögum síðan varð jarðskjálfti af stærðinni 6,9 á Filippseyjum þar sem 74 manns týndu lífi og þúsundir húsa eyðilögðust eða skemmdust.

Jarðskjálftar eru nær daglegt fyrirbæri á Filippseyjum, sem liggja á svokölluðum „Eldhring Kyrrahafsins“, boga mikillar jarðskjálftavirkni sem teygir sig frá Japan, um Suðaustur-Asíu og yfir Kyrrahafið.

Skjálftinn var 7,4 af stærð.
Skjálftinn var 7,4 af stærð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert