Fjórir Svíar, sem nú sæta ákæru fyrir mannrán og hlutdeild í mannráni litáísks manns í Noregi fyrir Héraðsdómi Buskerud í Drammen, neita allir sök en alls eru níu manns ákærðir í málinu sem upphaflega snýr að hassinnflutningi nokkurra Litáa til Østfold-fylkisins norska og deilur um sölurétt á fíkniefnamarkaði í bifreiðainnflutningsbænum Drammen í Buskerud.
Þremur mannanna er gefið að sök að hafa átt að handsama Litáann og hafa hann með sér til Svíþjóðar. Þeir komust hins vegar aldrei lengra en til húss í Krokstadelva í Drammen þar sem þeir bundu manninn og beittu hann ofbeldi uns þeir voru handteknir en lögregla hafði fylgst með húsinu um hríð.
Frode Sulland, verjandi eins Svíanna, segir ákæruvaldið vaða reyk, skjólstæðingur hans, sem setið hefur eitt ár í gæsluvarðhaldi, hafi aðeins ætlað sér að aka frá Svíþjóð til Noregs þar sem hann hafi átt stefnumót við stúlku í Ósló. „Hún hefur tjáð sig um ráðagerð þeirra við lögreglu en á eftir að koma fyrir dóm og bera vitni,“ segir Sulland sem ekki tjáir sig um vitnisburð stúlkunnar áður en hún leggur hann fyrir dómara.
Lögregluþjónar sem eru til vitnis segja Svíana hafa byrjað á að koma við á bensínstöð eftir að yfir til Noregs kom þar sem þeir hafi keypt sér vinnuhanska. Er ákærðu síðar gengu í skrokk á Litáanum hótuðu þeir samkvæmt gögnum lögreglu að myrða hvort tveggja hann og fjölskyldu hans.
Norska lögreglan hefur ítrekað undanfarið ár tjáð áhyggjur sínar af að Noregur stefni í sama farveg og Svíþjóð þar sem hrein styrjöld hefur ríkt í undirheimunum um það bil síðan heimsfaraldri lauk og töluverðar væringar árin þar á undan. Segir lögregla, þar á meðan Øyvind Aas, lögreglustjóri í Drammen, í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK ekki alls fyrir löngu, að ýmislegt sé nú tekið að eiga sér stað í undirheimum Óslóar sem minni á hörkuna í Svíþjóð.
Nokkrir hinna ákærðu eru grunaðir um tilraun til manndráps auk þess að hafa gert tilraun til þess að smygla umtalsverðu magni reiðufjár og fíkniefna frá Noregi sem falið var í bleiuumbúðum í bifreið sem þeir óku.
Skjólstæðingur Sullands verjanda neitaði að tjá sig um málið fyrir héraðsdómi og bar því við að hann óttaðist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar. Greindi hann frá því að í gæsluvarðhaldinu, þar sem hann er ekki lengur í einangrun enda hefur hann setið í eitt ár, hefði annar fangi komið inn í klefa til hans og tjáð honum að hann mætti ekki tjá sig fyrir dómi.
„Ég lifi í stöðugum ótta,“ sagði maðurinn er hann sat fyrir svörum í héraðsdómi.