Trump á leið í læknisskoðun: „Ég er í frábæru formi“

Donald Trump Bandaríkjaforseti gengst undir sína aðra læknisskoðun á árinu …
Donald Trump Bandaríkjaforseti gengst undir sína aðra læknisskoðun á árinu í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti fer í dag í sína aðra læknisskoðun á árinu en þessi elsti kjörni forseti í sögu Bandaríkjanna segist vera í frábæru formi.

Trump, sem er 79 ára gamall, mun ávarpa hermenn á Walter Reed hersjúkrahúsinu í útjaðri Washington-borgar áður en hann fer í skoðunina.

Trump fer í læknisskoðunina þremur mánuðum eftir að Hvíta húsið tilkynnti að hann hefði greinst með æðasjúkdóm í kjölfar vangaveltna um tíða marbletti á hendi hans og bólginn fótlegg.

Hvíta húsið sagði fyrr í vikunni að skoðunin í dag væri árleg, þrátt fyrir að Trump hefði þegar farið í slíka skoðun í apríl.

Trump sagði við fréttamenn í forsetaþotu sinni að hann ætlaði sér að fara í eins konar hálfs árs skoðun.

„Ég er í frábæru formi, en ég læt ykkur vita. En nei, ég á ekki í neinum vandræðum enn sem komið er. Líkamlega líður mér mjög vel. Andlega líður mér mjög vel,“ sagði Trump við fréttamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert