Vopnahlé á Gasa: Hvað nú?

Íbúar hópuðust saman á torgi gíslanna í Tel Avív í …
Íbúar hópuðust saman á torgi gíslanna í Tel Avív í Ísrael í dag og fögnuðu því að samkomulag um vopnahlé á Gasa er í höfn. AFP/John Wessels

Ísrael og hryðjuverkasamtökin Hamas hafa samþykkt fyrsta áfanga friðarsamkomulags sem kveður á um frelsun gísla í haldi Hamas á Gasa og palestínskra fanga í haldi Ísraelshers og í ísraelskum fangelsum. Vopnahlé tók þegar gildi eftir að ríkisstjórn Ísraels samþykkti fyrsta fasann um ellefuleytið í gærkvöldi.

Samkvæmt samkomulaginu mun Ísraelsher hörfa aftur fyrir hina svokölluðu „gulu línu“ innan sólarhrings frá samþykktinni, og mun herinn þá stýra um 53% af Gasa. 

Áætlunin gerir einnig ráð fyrir brottför ísraelskra hermanna frá Gasa þegar friðarferlið hefur náð næsta stigi. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur samkvæmt Hamas veitt tryggingar fyrir því að stríðinu ljúki.

Frelsun gísla og fanga – lifandi sem látinna

Fyrsti áfangi vopnahléssamkomulagsins kveður á um að allir gíslar sem eru í haldi á Gasa, bæði lifandi og látnir, verði leystir úr haldi innan þriggja sólarhringa frá því að Ísraelsher hörfar til baka. Enn eru 48 gíslar í haldi vígamanna Hamas, þar á meðal 20 sem ísraelski herinn telur að séu á lífi.

Við frelsun gíslanna hyggst Ísrael sleppa nær 2.000 palestínskum föngum úr haldi. Um 250 þeirra afplána lífstíðardóma en 1.700 hafa verið í haldi frá upphafi stríðsins, að því er háttsettur embættismaður Hamas-hryðjuverkasamtakanna, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði í samtali við AFP-fréttaveituna.

Lykilatriði í samningaviðræðunum hefur verið listi yfir palestínska fanga sem Hamas krefst að verði látnir lausir í fyrsta áfanga vopnahlésins. Meðal þeirra er hinn þekkti fangi Marwan Barghouti, sem tengist Fatah-hreyfingunni.

Ísrael hafnar því að leysa Barghouti úr haldi á þessu stigi en stuðningsmenn hans hafa gjarnan vísað til hans sem „palestínska Mandela“. Hann var sakfelldur fyrir aðild að þremur  hryðjuverkaárásum þar sem fimm manns létust.

Hjálpargögnum hleypt inn á Gasasvæðið

Minnst 400 vörubílar með hjálpargögnum munu aka daglega inn á Gasa-ströndina fyrstu fimm daga vopnahlésins. Að því loknu er gert ráð fyrir að ferðum verði fjölgað, samkvæmt heimildamanni AFP-fréttaveitunnar innan Hamas.

Samkomulagið felur einnig í sér að flóttamenn frá suðurhluta Gasa-svæðisins geti tafarlaust snúið aftur til Gasaborgar og norðurhluta svæðisins.

Afvopnun í öðrum áfanga samkomulagsins

Friðaráætlun Donalds Trump, sem samningaviðræðurnar byggðu á, kallar á afvopnun Hamas-hryðjuverkasamtakanna og að Gasasvæðinu verði komið undir stjórn bráðabirgðastjórnar undir forystu forsetans sjálfs.

Osama Hamdan, háttsettur embættismaður Hamas, hefur hins vegar lýst því yfir að samtökin hafni fyrirhugaðri bráðabirgðastjórn.

Trump hefur sagt að afvopnun Hamas verði tekin fyrir í öðrum áfanga friðaráætlunarinnar. Hann hefur jafnframt lofað að Ísraelsher dragi herlið sitt að fullu til baka þegar sá áfangi verður framkvæmdur.

Í lokaákvæði samkomulagsins kemur fram að settur verði á fót sérstakur eftirlitshópur með fulltrúum frá Bandaríkjunum, Egyptalandi, Katar, Tyrklandi og fleiri ríkjum sem aðilar koma sér saman um. Hlutverk hópsins verður að fylgja eftir framkvæmd samkomulagsins og miðla upplýsingum milli aðila.

Ágreiningur um sjálfstætt palestínskt ríki

Mahmud Abbas, forseti Palestínu, hefur sagst vonast til þess að samkomulagið myndi leiða til stofnunar sjálfstæðs palestínsks ríkis. Benjamin Netanjahú og ríkisstjórn hans hafa hins vegar ítrekað heitið því að koma í veg fyrir að það verði að veruleika.

Embættismaður úr röðum Hamas sagði að samningaviðræður um annan áfanga vopnahlésins myndu hefjast „strax“.

Aðeins er búið að samþykkja fyrsta fasa samkomulagsins og er ljóst að næstu daga verður áfram viðkvæmt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert