Þúsundir Palestínumanna streymdu í morgun til Gasaborgar eftir að hafa þurft að yfirgefa hana vegna stríðsins á Gasasvæðinu.
Annar dagur vopnahlésins á milli Ísraels og Hamas er runninn upp.
Margir þeir sem hafa snúið aftur í borgina eru í áfalli vegna eyðileggingar á sama tíma og aðrir finna fyrir létti yfir því að sjá heimili sín enn uppistandandi.
Raja Salmi gekk aftur að heimili sínu í Gasaborg í morgun þar sem Ísraelar gerðu harðar loftárásir svo vikum skipti og voru með hernað á jörðu niðri í aðgerðum sínum gegn vígamönnum Hamas.
„Við gengum í þó nokkrar klukkustundir og hvert skref var uppfullt af tárum og kvíða vegna heimilis míns,” sagði Salmi við AFP-fréttastofuna.
Þegar hún kom í hverfið Al-Rimal sá hún að húsið hennar var ónýtt.
„Það er ekki lengur til. Þetta eru bara rústir,” sagði hún. „Ég stóð fyrir framan þetta grét. Allar minningarnar mínar hafa núna breyst í ryk.”
Um 50 þúsund manns snúa aftur í Gasaborg í dag, samkvæmt varnarmálastofnun Gasa sem starfar á vegum Hamas.
Þar með hafa um 250 þúsund manns snúið aftur í borgina síðan í gær, að sögn stofnunarinnar.


