Mikilvæg leið inn á Gasasvæðið fyrir vörubíla með hjálpargögn verður opnuð á nýjan leik á þriðjudaginn.
Þetta sagði varnarmálaráðherra Ítalíu í tilkynningu.
Rafah-landamærahliðið verður opnað í tvær áttir, annars vegar verður útgönguleið í átt að Egyptalandi og hins vegar inngangur í átt að Gasa, sagði Guido Crosetto, varnarmálaráðherra Ítalíu, að því er BBC greindi frá.
Um 600 vörubílum með hjálpargögn verður hleypt inn á Gasasvæðið á degi hverjum.
Ísraelsher tók yfir stjórnina á Rafah-landamærahliðinu í maí í fyrra en opnaði það aftur í febrúar eftir átta mánaða lokun. Takmörkuð neyðaraðstoð hefur borist yfir landamærin síðan þá.

