Flugvél Ryanair lenti í síðustu viku á flugvellinum í Manchester með aðeins sex mínútur af eldsneyti eftir í tönkum sínum.
Rannsókn er hafin á atvikinu.
Flugvélin, sem var á leið frá Pisa á Ítalíu til Prestwick í Skotlandi, hafði á flugi sínu barist við sterka vinda vegna stormsins Amy og gat hún ekki lent af þeim sökum.
Eftir þrjár misheppnaðar tilraunir til að lenda sendu flugstjórarnir út neyðarboð og flugu í flýti í átt að Manchester þar sem veðrið var betra.
Í flugvélinni, af tegundinni Boeing 737-800, voru aðeins 220 kg af eldsneyti eftir í tönkunum þegar henni tókst loksins að lenda, að því er The Guardian greindi frá. Samkvæmt ljósmynd af því sem virðist vera handskrifuð tæknileg færsla dugar eldsneytið aðeins fyrir fimm eða sex mínútna flugtíma, að mati flugmanna sem rannsökuðu myndina.
