Lögreglan í Ósló beitti táragasi gegn um eitt þúsund mótmælendum við Ullevaal

Lögreglumenn raða sér upp rétt áður en táragasi var beitt …
Lögreglumenn raða sér upp rétt áður en táragasi var beitt við Ullevaal-leikvanginn í kvöld, fyrsta skipti sem lögregla í Ósló beitir táragasi síðan til heiftarlegra átaka kom í miðborginni við samkomu SIAN 29. ágúst 2020. Skjáskot/Fréttamyndskeið NRK

Lögreglan í Ósló beitti táragasi og handtók 22 þegar til átaka kom við Ullevaal-leikvanginn í dag þar sem fram fór knattspyrnuleikur Noregs og Ísraels í undankeppni fyrir heimsmeistarakeppnina á næsta ári en aldrei hafa aðrar eins öryggisráðstafanir verið gerðar vegna knattspyrnuleiks á norskum leikvangi sem í dag.

Yfir eitt þúsund mótmælendur, hliðhollir Palestínumönnum, voru mættir utan við Ullevaal áður en leikurinn hófst og hafði lögregla sett upp girðingar til að halda þeim fjarri leikvanginum. Ekki leið á löngu uns mótmælendur tóku að brjóta girðingarnar niður eftir að hafa kveikt í þjóðfána Ísraels og til átaka kom við tugi lögreglumanna sem klæddir voru óeirðabúningum og báru hjálma með andlitshlífum, gasgrímur, kylfur og annan öryggisbúnað.

Handtók lögregla þá mótmælendur sem mest höfðu sig í frammi og hafði þá til bráðabirgða í haldi við John Collets-torgið, um 900 metra frá leikvanginum. Mega hinir handteknu eiga von á kærum fyrir röskun almannareglu og skemmdarverk að sögn lögreglu.

Fjöldi lögreglumanna í óeirðabúnaði lætur til skarar skríða gegn um …
Fjöldi lögreglumanna í óeirðabúnaði lætur til skarar skríða gegn um eitt þúsund mótmælendum sem þá höfðu haft sig mjög í frammi og brotið niður öryggisgirðingar lögreglu. Skjáskot/Fréttamyndskeið NRK

„Við beittum því gasi“

Klukkan 19 í kvöld að staðartíma, 17 á Íslandi, var svo komið að lögregla sá sér ekki annað fært en að beita CS-gasi, öðru nafni táragasi, til að dreifa mótmælendum en eftir því sem mbl.is kemst næst hefur lögreglan í norsku höfuðborginni ekki beitt táragasi síðan til heiftarlegra átaka kom í miðborginni 29. ágúst 2020 á samkomu samtakanna SIAN, eða Stop islamiseringen av Norge, sem hafa það fyrir vana að brenna Kóraninn, helgirit múslima, á samkomum sínum.

„Fjöldi mótmælenda braut niður öryggisgirðingar lögreglu við Ullevaal-leikvanginn,“ skrifar lögregla á upplýsingasíðu sína. „Við beittum því gasi til að ná stjórn á fólksfjöldanum. Enginn beið líkamstjón af þessu.“

Áður en lögregla beitti táragasi gaf hún mótmælendum lokaaðvörun, sagði fréttamaður norska ríkisútvarpsins NRK á vettvangi frá og ræddi auk þess við Gabriel Langfeldt, aðgerðastjórnanda lögreglu á vettvangi.

„Við gerðum fjölda tilrauna til að gefa þeim fyrirmæli sem ekki var fylgt. Þá beittum við gasi til að ná stjórn á fólksfjöldanum,“ sagði Langfeldt við NRK í kvöld.

Lögreglumenn handtaka mótmælanda en 22 voru handteknir í kvöld fyrir …
Lögreglumenn handtaka mótmælanda en 22 voru handteknir í kvöld fyrir spellvirki og röskun almannafriðar. Skjáskot/Fréttamyndskeið NRK

„Til skammar fyrir íþróttina“

Skömmu síðar greindi lögregla frá því í tilkynningu að milli 100 og 200 mótmælendur væru eftir á svæðinu en meðan á leiknum sjálfum stóð tókst mótmælanda inni á leikvanginum að hlaupa inn á völlinn áður en öryggisverðir náðu til hans.

„Þetta er til skammar fyrir íþróttina og skömm sé öllum sem leyfðu þjóðarmorði að viðgangast,“ segir Fakhra Salimi, palestínskur mótmælandi sem NRK ræddi við í kvöld, „hér fagnar fólk eins og ekkert hafi gerst.“

Mótmælendur flýja undan lögreglu sem í dag viðhafði mestu öryggisráðstafanir …
Mótmælendur flýja undan lögreglu sem í dag viðhafði mestu öryggisráðstafanir við íþróttakappleik í sögu norskrar löggæslu. Skjáskot/Fréttamyndskeið NRK

Line Khateeb er formaður Palestínunefndarinnar, Palestinakomiteen, sem stóð að mótmælunum í dag undir slagorðinu „Knattspyrna án þjóðarmorðs“, eða „Fotball uten folkemord“, og sagði hún við NRK í kvöld að mikið verk væri fyrir höndum þar til Ísraelsríki yrði dregið til ábyrgðar fyrir brot sín.

„Þetta er pólitískt verkfall“

Annar liður í mótmælunum, sem vakti töluverða athygli, var að klukkan 17 í dag að norskum staðartíma námu allir sporvagnar og allar neðanjarðarlestir í Ósló, auk fjölda strætisvagna, staðar í fimmtán mínútur. „Þetta er pólitískt verkfall,“ voru skilaboð sem birtust á öllum upplýsingaskjám á biðstöðvum höfuðborgarinnar.

Að baki aðgerðinni stóð stéttarfélagið Oslo Sporveiers Arbeiderforening með boðskapinn „Stöðvum þjóðarmorðið – olíusjóðinn út úr Ísrael.“

NRK

Nettavisen

Dagsavisen

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert