Viðræður um annan áfanga flóknar og erfiðar

Vopnahlé hófst í kjölfar þess að samkomulag náðist um fyrsta …
Vopnahlé hófst í kjölfar þess að samkomulag náðist um fyrsta áfanga áætlunarinnar. AFP/Menahem Kahana

Samningaviðræður um annan áfanga friðaráætlunar Bandaríkjaforseta til að binda enda á átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, verða flóknar og erfiðar, að sögn háttsetts fulltrúa Hamas-samtakanna.

Annar áfangi felur meðal annars í sér afvopnun Hamas og að Gasasvæðinu verði komið undir bráðabirgðastjórn undir forystu Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þá á Ísraelsher að draga herlið sitt til baka að fullu við framkvæmd annars áfanga.

Íbúar Gasaborgar snúa nú aftur til síns heima þar sem …
Íbúar Gasaborgar snúa nú aftur til síns heima þar sem gríðarleg eyðilegging tekur við þeim. AFP/Eyad Baba

„Það fer ekki á milli mála að annar áfangi Trump-áætlunarinnar inniheldur mörg erfið og flókin atriði sem þarf að ná saman um,“ sagði Hossam Badran, embættismaður á vegum Hamas-samtakanna í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Hamas er reiðubúið til að bregðast við ef friðaráætlunin rennur út í sandinn og Ísraelsmenn hefja árásir á ný, að sögn Badran.

„Við vonum að við þurfum ekki að snúa aftur til stríðs, en palestísnska þjóðin mun veita mótspyrnu ásamt varnarsveitum og bregðast við af fullum krafti ef árásir hefjast á nýjan leik.“

Gíslar frelsaðir í fyrsta áfanga

Ísraelsmenn og Hamas-samtökin náðu saman um fyrsta áfanga friðarátætlunarinnar í fyrradag og hófst vopnahlé formlega í kjölfarið.

Fyrsti áfangi kveður á um frelsun gísla í haldi Hamas á Gasa og palestínskra fanga í haldi Ísraelshers og í ísraelskum fangelsum.

Þá átti Ísraelsher að hörfa aftur fyrir hina svokölluðu „gulu línu“ innan sólarhrings frá samþykktinni, og mun herinn þá stýra um 53% af Gasa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert