Búist við að elsti forseti heims hljóti endurkjör

Hér má sjá Paul Biya, forseta Kamerún, greiða atkvæði í …
Hér má sjá Paul Biya, forseta Kamerún, greiða atkvæði í dag. AFP

Búist er við að Paul Biya, forseti Kamerún, hafi unnið forsetakosningar sem fram fóru í landinu í dag. Kjörstöðum hefur verið lokað en fyrstu tölur hafa ekki verið birtar. 

Biya er 92 ára gamall og er elsti þjóðarleiðtogi heims. Hljóti hann kjör yrði það hans áttunda kjörtímabíl en hann hefur verið forseti Kamerún síðastliðin 43 ár. Hann er eini þjóðarleiðtogi heims á tíræðisaldri en sá næstelsti er Mahmud Abbas, forseti Palestínu, sem er 89 ára gamall. 

Í fyrsta sinn gerðist það nú að meira en helmingur kosningabærra manna fæddust í valdatíð Biya. Hann er aðeins annar forseti Kamerún frá því að ríkið hlaut sjálfstæði frá Frakklandi árið 1960. 

Hinn 79 ára gamli Issa Tchiroma er helst talinn geta …
Hinn 79 ára gamli Issa Tchiroma er helst talinn geta veitt Biya samkeppni. AFP

Geti gripið til úrræða svo úrslit séu þeim hagfelld

11 manns buðu sig fram á móti forsetanum, meðal annars hinn 79 ára gamli Issa Tchiroma, sem var með töluvert fylgi í könnunum en þó töluvert á eftir Biya. 

AFP fréttaveitan ræddi við Biya á kjörstað í dag en hann vildi ekki fullyrða að sigurinn væri í höfn. Kamerúnski stjórnmálafræðiprófessorinn Stephane Akoa tók ekki í sama streng. 

„Við skulum ekki vera barnaleg. Við vitum fullvel að ríkjandi stjórnvöld hafa ákveðin úrræði sem þau geta gripið til svo að úrslit kosninga verði þeim í hag. Við skulum samt hafa í huga að þessi kosningabarátta hefur verið fjörugri en áður, þannig auðvitað getur eitthvað mjög óvænt gerst,“ sagði prófessorinn. 

Akoa segir forsetann vera umdeildan meðal ungra kjósenda, hann sé þó ekki nægilega óvinsæll til þess að honum sé mótmælt af krafti. Samkvæmt gögnum frá alþjóðastofnunum lifa 40 prósent íbúa landsins undir fátæktarmörkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert