Heita því að eyðileggja öll neðanjarðargöng Hamas

Á þessari ljósmynd frá ísraelska hernum má sjá hermenn inni …
Á þessari ljósmynd frá ísraelska hernum má sjá hermenn inni í göngum sem fundust undir borginni Khan Yunis á Gasasvæðinu. AFP

Ísraelar ætla að eyðileggja það sem eftir er af neðanjarðargöngum Hamas-samtakanna undir Gasasvæðinu. Ráðist verður í verkefnið, með samþykki Bandaríkjanna, eftir að gíslum verður sleppt úr haldi.

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði að aðgerðin yrði framkvæmd samkvæmt „alþjóðlegu ferli” sem leitt yrði af Bandaríkjunum.

Israel Katz.
Israel Katz. AFP/Attila Kisbenedek

„Stór áskorun Ísraela eftir að gíslunum verður sleppt úr haldi verður eyðilegging allra neðanjarðarganga hryðjuverkamanna Hamas á Gasa,” sagði Katz í yfirlýsingu.

„Ég hef fyrirskipað hernum að undirbúa þessa aðgerð.”

Mörg þegar verið eyðilögð

Fjölmörg neðanjarðargöng Hamas eru undir Gasasvæðinu. Þar geta vígamenn samtakanna starfað án þess að Ísraelar sjái þá.

Sum ganganna ná undir landamæragirðinguna yfir til Ísraels sem auðveldar samtökunum að gera óvæntar árásir.

Mörg ganganna hafa þegar verið eyðilögð í stríðinu á Gasasvæðinu sem hófst eftir árás Hamas á Ísrael 7. október 2023. Vopnahlé á svæðinu hefur nú staðið yfir í þrjá daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert