Fulltrúar Íran hyggjast sniðganga fundinn um friðarsamkomulagið á milli Ísraels og Hamas-hryðjuverkasamtakanna sem fram fer í strandbænum Sharm El-Sheik í Egyptalandi á morgun.
Leiðtogar yfir tuttugu ríkja, þar á meðal Íran, hafa verið boðaðir á fundinn en hvorki Masoud Pezeskhian, forseti Íran, né Abbas Aragchi utanríkisráðherra hyggjast láta sjá sig á fundinum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Abdel Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, munu stýra fundinum. Trump er væntanlegur til Egyptalands á morgun en mun fyrst koma við í Ísrael þar sem hann mun ávarpa þjóðþingið Knesset.
„Hvorki ég né Pezeskhian forseti getum átt í samskiptum við aðila sem hafa ráðist á írönsku þjóðina og halda áfram að hóta okkur og beita okkur refsiaðgerðum,“ sagði Aragchi utanríkisráðherra í færslu á samfélagsmiðlinum X nú í kvöld en hann tók þó fram að írönsk stjórnvöld styddu við allar aðgerðir sem væru til þess fallnar að „binda enda á þjóðarmorðið á Gasa-ströndinni.“
Íran og Ísrael áttu í tólf daga löngum átökum í sumar sem lauk í kjölfar sprenginga Bandaríkjamanna þar sem Íranar hafa kjarnorkustarfsemi sína.
