Macron skipar enn eina ríkisstjórnina

Sebastian Lecornu er forsætisráðherra Frakklands.
Sebastian Lecornu er forsætisráðherra Frakklands. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur kynnt nýja ríkisstjórn landsins eftir langar viðræður um stjórnarmyndun.

Sebastian Lecornu var skipaður forsætisráðherra á ný fyrr í vikunni, fjórum dögum eftir að hann sagði af sér embætti. Lecornu er fimmti forsætisráðherra Frakklands á síðustu tveimur árum. 

Stjórnarkreppa hefur ríkt í Frakklandi og liggur mikið á því að koma í gegn fjárlagafrumvarpi en Lecornu segir hina nýju ríkisstjórn hafa það meginhlutverk að koma fjárlögum í gegnum þingið. 

Sumir sitja áfram en einhver ný andlit

Einhverjar mannabreytingar eru á stjórninni frá fyrri stjórn Lecornu. Noel Barrott verður áfram utanríkisráðherra og Catherine Vautrine, sem áður var vinnumálaráðherra, er nú varnarmálaráðherra. 

Rachida Dati, sem sætir nú ákæru fyrir meinta spillingu, er áfram menningarmálaráðherra og Geral Darmanin er áfram dómsmálaráðherra. 

Laurent Nunez, sem hefur hingað til verið lögreglustjórinn í París, er nú innanríkisráðherra en Bruno Retailleau, sem gegndi áður embættinu, hafði gefið út að flokkur hans tæki ekki þátt í myndun nýrrar ríkisstjórnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert