Ný frímerki með croissant-lykt

Hér má sjá hið nýja frímerki.
Hér má sjá hið nýja frímerki. Ljósmynd/Franska póstþjónustan

Franska póstþjónustan hefur nú hafið útgáfu á ansi sérkennilegum frímerkjum. Nýjustu frímerki landsins eru nefnilega með croissant-lykt. 

Breska dagblaðið Times fjallaði um frímerkin.

Útgáfa frímerkjanna hófst fyrir skömmu og er ætlunin með þeim að styrkja franska þjóðarsál. Þau eru gefin út í 594.000 eintökum og kostar hvert þeirra 2.10 evrur, eða um 300 krónur. 

„Allir söfnuðu frímerkjum þegar þeir voru krakkar. Með því að tengja frímerki við lykt sem allir kannast við er hægt að efla samstöðu frönsku þjóðarinnar,“ segir Frederic Morin, varaforstjóri frönsku póstþjónustunnar. 

Þrátt fyrir að ætlunin með frímerkjunum sé þessi eru frímerkin notuð til sendinga úr landi og eru því ekki gild þegar kemur að sendingum innanlands.  

Croissant núna en Baguette í fyrra

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem franska póstþjónustan fer óvenjulegar leiðar við gerð frímerkja en í fyrra voru gefin út sérstök frímerki með baguette-lykt til skamms tíma.

Baguette-frímerkin unnu til verðlauna sem fallegasta frímerkið á hátíð sem póstþjónustan hélt í fyrra. 

Þrátt fyrir að croissant séu almennt tengd við Frakkland er talið að þau hafi fyrst verið bökuð í Austurríki á 17. öld og ekki borist til Frakklands fyrr en um 200 árum síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert