Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði stríðið á Gasa búið er hann steig upp í flugvél í kvöld á leið til Ísraels og Egyptalands til að fagna vopnahléi og frelsi ísraelsku gíslanna sem hafa verið í haldi Hamas-samtakanna frá innrás þeirra þann 7. október 2023.
Trump ætlar sér einnig að hitta fjölskyldur ísraelsku gíslanna. Hann mun síðan flytja ræðu fyrir Knesset, ísraelska þinginu í Jerúsalem, og verða þar með fjórði forseti Bandaríkjanna til að gera það.
Forsetinn mun síðan halda til Egyptalands þar sem hann og forseti landsins, Abdel Fattah al-Sisi, munu sameiginlega halda leiðtogafund með leiðtogum yfir 20 ríkja um hvernig binda eigi enda á stríðið á Gasa og stuðla að friði í Mið-Austurlöndum.
Búist er við því að Trump lendi í Ísrael stuttu eftir að áætlað er að Hamas sleppi gíslunum úr haldi á morgun.
Þegar blaðamenn spurðu Trump hvort hann væri viss um að átökunum milli Ísraels og Hamas væri lokið sagði hann „Stríðið er búið, allt í lagi? Skiljið þið það?“
Áður en hann steig um borð í flugvélina með regnhlífina spennta í rigningunni bætti hann við að heimsóknin yrði mjög sérstök og að allir væru mjög spenntir fyrir þessari stund.
Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth varnarmálaráðherra John Ratcliffe, yfirmaður CIA, og Dan Caine, yfirmaður bandaríska hersins, voru með honum í forsetaþotunni.
