Í það minnsta 42, þar á meðal verkamenn frá Malaví og Simbabve, létu lífið þegar farþegarúta valt í Suður-Afríku í gærkvöld að sögn yfirvalda.
Rútan var á leið til Simbabve þegar hún fór út af um það bil 90 kílómetrum frá landamærunum að sögn Violet Mathye, samgönguráðherra Limpopo-héraðs. Talið er að ökumaðurinn hafi misst stjórn á rútubifreiðinni.
„Tilkynnt hefur verið að 42 farþegar hafi látist í slysinu,“ segir í yfirlýsingu frá skrifstofu forseta Suður-Afríku en meðal hinna látnu var tíu mánaða gömul stúlka.
38 manns voru lagðir inn á sjúkrahús og björgunaraðilar leita fleiri fórnarlamba í slysinu að sögn yfirvalda.
Forseti Suður-Afríku, Cyril Ramaphosa, lýsti slysinu sem harmleik fyrir öll þrjú löndin og hvatti vegfarendur til að huga betur að öryggi.
Rannsókn á orsökum slyssins stendur yfir en að sögn yfirvalda gæti það hafa stafað af þreytu ökumanns rútubifreiðarinnar eða bilun í farartækinu.
