Sérsveitarmenn lögreglunnar í Stokkhólmi í Svíþjóð voru kallaðir á vettvang í kjölfar tilkynningar sem barst lögreglunni aðfaranótt gærdagsins um að tilkynnandi hefði séð riffilhlaupi beint út um glugga íbúðar við Maríutorgið í Södermalm.
Á myndskeiði sem blaðamaður Aftonbladet tók á vettvangi má sjá mann sem stendur við opinn glugga og miðar öflugum riffli niður á götuna.
Réðust sérsveitarmenn skömmu síðar til inngöngu í íbúðina þar sem 55 ára gamall maður hittist fyrir og hafði komið sér upp veglegu vopnabúri í íbúðinni auk þess sem þar voru birgðir skotfæra.
Var maðurinn handtekinn og vopnin gerð upptæk meðan á rannsókn málsins stendur en reyndist hann þó hafa skotvopnaleyfi. Gaf hann þá skýringu á háttsemi sinni að hávær tónlist frá bifreiðum niðri á götunni hefði farið í hans fínustu taugar og hefði hann því miðað riffli sínum niður á götuna til að velgja ökumönnum undir uggum.
Má hann reikna með kæru fyrir að ógna almenningi gróflega með skotvopni.
Aftonbladet (hér má sjá myndskeið af byssumanninum í glugganum)
